Lærdómsríkt EM

Kvennalandsliðið með silfur á EM. Frá vinstri: Ásta Kristinsdóttir, Norma …
Kvennalandsliðið með silfur á EM. Frá vinstri: Ásta Kristinsdóttir, Norma Dögg Róbertsdóttir, Kolbrún Þöll Þorradóttir, Tinna Ólafsdóttir, Sólveig Bergsdóttir, Þórey Ásgeirsdóttir, Margrét Lúðvígsdóttir, Andrea Sif Pétursdóttir, Hekla Mist Valgeirsdóttir, Kristín Amalía Líndal, Karitas Inga Jónsdóttir og Valgerður Sigfinnsdóttir. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Við komumst enn einu sinni að því að allt getur gerst og mjótt getur verið á munum,“ sagði Björn Björnsson, annar yfirþjálfara íslensku landsliðanna í hópfimleikum, eftir að Evrópumótinu lauk í Odivela í úthverfi Lissabon síðdegis á laugardaginn. Ísland sendi fjögur lið til mótsins en alls var keppt í sex flokkum á Evrópumótinu. Þrjú íslensku liðanna náðu í verðlaun. Kvennalandsliðið var í öðru sæti þriðja mótið í röð og var hársbreidd á eftir sænska landsliðinu sem vann sinn þriðja Evrópumeistaratitil í röð. Blönduð sveit fullorðinna hreppti þriðja sætið eins og stúlknalandslið. Blandað landslið unglinga varð svo í fjórða sæti.

„Ég og Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir lærðum mikið af þessu móti og af þeirri vinnu sem lögð var í liðin fyrir mótið og meðan á því stóð. Vonandi höldum við áfram að hafa tækifæri til þess að vinna áfram að einhverju leyti með þeim. Síðan tel ég að á næsta móti mæti unglingalið okkar mjög sterk til leiks á næsta Evrópumóti vegna þess að það er mikill efniviður fyrir hendi á Íslandi,“ sagði Björn, sem hefur lengi komið að þjálfun í hópfimleikum, bæði sem landsliðsþjálfari og félagsþjálfari.

Björn segir að fara þurfi vel yfir áherslur í æfingum félagsliðanna á Íslandi og vafalaust verður það gert meðal annars innan Fimleikasambandsins þegar mótið verður gert upp. „Hinsvegar verður aldrei framhjá því litið að íslenskt íþróttalíf hefur úr færra hæfileikafólki að velja en fjölmennari þjóðir. Þjálfararnir hjá félagsliðunum hafa hinsvegar náð ótrúlegum árangri í þjálfuninni sem hefur meðal annars orðið til þess að við eigum afar margt mjög gott fimleikafólk. En vissulega þarf alltaf að endurskoða þjálfun og vinnubrögð til dæmis í kringum landsliðin. Það er eðlilegt,“ sagði Björn, sem reiknar með að Fimleikasambandið muni efla sitt starf í kringum landsliðin í náinni framtíð til þess að freista þess að gera enn betur en þegar hefur verið gert.

Nánar er fjallað um EM í hópfimleikum í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag, en Morgunblaðið og mbl.is fylgdi íslenskulandsliðunum til Lissabon.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert