Líkamsræktarhátíð í Höllinni

„Þetta er festival, þetta er meira en bara eitthvert fitnessmót,“ segir Konráð Valur Gíslason mótshaldari um Iceland Open sem verður í Laugardalshöll 15. desember. Þar verður keppt á fjórum alþjóðlegum mótum: í kraftlyftingum, vaxtarrækt, brasilísku jiu-jitsu á vegum Mjölnis og Nocco-þrautabraut. 

Í myndskeiðinu er rætt við mótshaldara og þjálfara um viðburðinn sem á sér langan aðdraganda. mbl.is mun á næstu vikum hita upp fyrir mótið með viðtölum við keppendur og fá innsýn í undirbúninginn. 

Allar greinar fara fram í gömlu Laugardalshöllinni. Kraftlyftingarnar verða í anddyrinu þar sem margir af sterkustu kraftlyftingamönnum landsins munu etja kappi, þar á meðal Hafþór Júlíus Björnsson, sterkasti maður í heimi. Þá mun Kirill Sarychev, heimsmethafinn í bekkpressu, koma til landsins vegna mótsins og reyna við þyngdir sem ekki hafa sést áður hér á landi.

Atvinnumannaskírteini í boði

Á sviðinu verður Iceland Open IFBB pro qualifier, alþjóðlegt fitness- og vaxtarræktarmót þar sem alþjóðlegir keppendur munu etja kappi við þá íslensku. Á þessu móti hafa 6 keppendur möguleika á því að vinna sér inn atvinnumannsskírteini sem gerir keppendum kleift að keppa á stórmótum eins og Olympia og Arnold classic pro þar sem vegleg peningaverðlaun eru í boði. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem það er mögulegt hér á landi.

Í salnum verður svo Mjölnir með mót í brasilísku jui-jitsu. Keppt verður án galla eða no-gi og verður að yfirbuga andstæðinginn (submission). Lagt er upp með að fá keppendur til leiks frá öllum bardagaklúbbum landsins til að etja kappi fyrir framan mikinn fjölda áhorfenda. 

<div>Nocco-áskorunin eða „The Nocco challenge“ fer líka fram í salnum. Þar er um að ræða þrautabraut sem samanstendur af 12 æfingum þar sem keppt er í að ná sem bestum tíma. Keppt er í einstaklingskeppni, parakeppni og liðakeppni. Þá verður umfangsmikil sýning á heilsu- og líkamsræktarvörum í salnum.</div>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert