Enginn áhugi á kaffibolla með Neville

Xherdan Shaqiri hefur spilað frábærlega fyrir Liverpool í undanförnum leikjum.
Xherdan Shaqiri hefur spilað frábærlega fyrir Liverpool í undanförnum leikjum. AFP

Xherdan Shaqiri, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, hefur ekki áhuga á því að setjast niður með Gary Neville, fyrrverandi fyrirliða Manchester United og núverandi sparkspekingi hjá Sky Sports, og ræða málin yfir kaffibolla.

Shaqiri gekk til liðs við Liverpool í sumar frá Stoke City en Liverpool borgaði 13 milljónir punda fyrir leikmanninn. Neville gagnrýndi félagaskiptin á sínum tíma og efaðist um að Shaqiri hefði það sem til þarf, til þess að spila hjá jafn stóru félagi og Liverpool en Svisslendingurinn hefur spilað frábærlega fyrir enska liðið í síðustu leikjum.

„Ég hef ekki áhuga á því að setjast niður með Gary Neville yfir kaffibolla og fara yfir málin,“ sagði Shaqiri í samtali við Blick. „Mér er nákvæmlega sama hvað hann hefur að segja. Ég er að spila vel þessa stundina og hef ekki áhuga á því að hlusta á hann. Það voru margir sem gagnrýndu félagaskipti mín til Liverpool og sögðu að félagið væri of stórt fyrir mig.“

„Ég hef alltaf haldið ró minni eftir að ég samdi við félagið. Líka þegar að ég fékk lítið að spila í upphafi tímabilsins. Ég hef spilað með stórum liðum áður, eins og Inter Mílanó og Bayern München, og þar þurfti ég að vera þolinmóður og nýta þau tækifæri sem ég fékk. Ég veit hvað það þýðir að spila fyrir stórt félag eins og Liverpool,“ sagði Shaqiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert