Drukknum ólympíumeisturum sópað burt

Ryan Fry og félagar hans fóru fram úr sér á …
Ryan Fry og félagar hans fóru fram úr sér á svellinu. AFP

Íþróttamenn í fremstu röð geta eins og aðrir farið út af sporinu og því fékk ólympíusigurvegari í krullu að kynnast á dögunum. Hafði hann þá ásamt liðsfélögum sínum látið öllum illum látum á svellinu og voru þeir augljóslega drukknir.

Ryan Fry var í sigurliði Kanada á vetrarólympíuleikunum í Sotsjí árið 2014 en hann ásamt liðsfélögum sínum tók þátt í móti í heimalandinu á dögunum. Þeir voru komnir í úrslitaleikinn en voru dæmdir úr leik eftir að mótherjarnir kvörtuðu. Höfðu Fry og félagar þá látið öllum illum látum, brotið kústa sem notaðir eru í íþróttinni og unnið skemmdir á búningsherbergjum.

„Þeir voru dauðadrukknir, brutu kústa og bölvuðu þegar þeir áttu að keppa,“ er haft eftir starfsmanni þar sem mótið fór fram. Fry hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann biðst afsökunar.

„Ég vil biðjast afsökunar og mun gera mitt besta til þess að verða betri útgáfa af sjálfum mér. Ég vil gefa af mér fyrir krulluíþróttina sem hefur gefið mér svo mikið,“ segir Fry, en mótið sem um ræðir var hluti af heimsmótaröðinni í krullu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert