Lindsey Vonn meiddist á hné

Lindsey Vonn stefnir að því að komast oftar á verðlaunapall …
Lindsey Vonn stefnir að því að komast oftar á verðlaunapall áður en ferlinum lýkur. AFP

Lindsey Vonn, sigursælasta skíðakona frá upphafi, verður ekki með þegar heimsbikarinn í alpagreinum hefst vegna hnémeiðsla sem hún varð fyrir á æfingu í Colorado. 

Vonn er 34 ára og hefur lýst því yfir að keppnistímabilið sem senn fer í hönd verði hennar síðasta á ferlinum en hún hefur fengið sinn skerf af meiðslum á síðustu árum. 

Vonn hefur lagt hart að sér á undirbúningstímabilinu til þess að ljúka ferlinum með stæl í vetur. Ef henni tækist vel upp þá er enn sá möguleiki til staðar að hún slái met Svíans Ingimars Stenmarks varðandi flesta sigra á heimsbikarmótum. Hún þarf að sigra á fjórum mótum í vetur til að jafna við sænsku goðsögnina og þarf því fimm sigra til að verða sú sigursælasta frá upphafi. Ljóst er að líkurnar á því hafa minnkað verulega við þetta bakslag. 

Vonn mun í það minnsta missa af fyrstu þremur mótunum í Kanada vegna meiðslanna en segist ekki þurfa að gangast undir aðgerð vegna meiðslanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert