Anton í undanúrslit og tvö Íslandsmet

Anton Sveinn McKee á ferðinni á HM í nótt.
Anton Sveinn McKee á ferðinni á HM í nótt. Ljósmynd/Simone Costrovillari

Anton Sveinn McKee komst í morgun í undanúrslit í 100 metra bringusundi á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug í Hangzhou í Kína.

Anton synti í fimmta riðli og varð þar annar á 57,57 sekúndum en þegar upp var staðið var það tólfti besti tíminn í riðlunum átta. Sextán bestu úr undanrásunum komust í undanúrslitin sem fram fara síðar í dag.

Hann sló fyrst Íslandsmet Jakobs Jóhanns Sveinssonar í 50 m bringusundi en millitími Antons á þeirri vegalengd var 26,98 sekúndur. Met Jakobs frá 2009 var 27,37 sekúndur.

Anton kom síðan í mark á 57,57 sekúndum og bætti metið sitt frá því í Berlín árið 2017 þegar hann synti á 58,66 sekúndum. Besta tímanum náði Ilja Shimanovich frá Hvíta-Rússlandi sem synti á 56,47 sekúndum.

Kristinn Þórarinsson keppti í undanrásum í 200 metra fjórsundi í morgun. Hann hafnaði þar í 34. sæti af 43 keppendum og komst því ekki lengra. Kristinn synti vegalengdina á 2:01,63 mínútum en hefði þurft að synda á 1:53,70 til að komast áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert