Fjórða Íslandsmet Antons í Hangzhou

Anton Sveinn McKee í 50 m bringusundinu í morgun.
Anton Sveinn McKee í 50 m bringusundinu í morgun. Ljósmynd/Simone Castrovillari

Anton Sveinn McKee setti sitt fjórða Íslandsmet á heimsmeistaramótinu í sundi í 25 metra laug í morgun en þá fóru fram undanrásir í 50 metra bringusundi í Hangzhou í Kína.

Anton setti met í greininni fyrr á mótinu þegar hann synti fyrri fimmtíu metrana í 100 metra bringusundinu á 26,98 sekúndum. Í morgun bætti hann um betur og synti vegalengdina á 26,74 sekúndum.

Hann náði ekki að komast í undanúrslitin í greininni, endaði í 21. sætinu og hefði þurft að synda á 26,57 sekúndum til að ná sextánda sætinu og fara áfram. Anton endaði þar með í 10., 16. og 21. sæti í sínum þremur greinum á HM.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir keppti í 50 metra skriðsundi í morgun. Hún endaði í 31. sæti af 93 keppendum á 25,67 sekúndum en Íslandsmet Ragnheiðar Ragnarsdóttur frá 2010 í þessari grein er 24,94 sekúndur. Þetta var seinni grein Ingibjargar á mótinu en hún varð í 30. sæti í 50 metra baksundi.

Dadó Fenrir Jasmínuson keppti í 100 metra skriðsundi í morgun. Hann synti vegalengdina á 50,19 sekúndum og endaði í 55. sæti af 109 keppendum en besti tími hans í greininni er 49,59 sekúndur. Þetta var seinni grein Dadós á mótinu en hann varð í 54. sæti í 50 metra skriðsundinu.

Íslendingarnir hafa þar með lokið keppni á mótinu í Hangzhou en því lýkur á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert