Ekki alltaf bestu liðin sem fara áfram

Íslenska liðið tapaði fyrir Tyrkjum í dag.
Íslenska liðið tapaði fyrir Tyrkjum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fórum inn í þetta mót og ætluðum okkur stærri hluti. Nú verðum við bara að spila þessa tvo leiki og klára mótið með stæl. Við ætlum okkur að vinna tvo síðustu leikina,“ sagði svekktur Jussi Sipponen, landsliðsþjálfari U20 ára lið Íslands í íshokkí, eftir 4:2-tap fyrir Tyrkjum í C-deild heimsmeistaramóts karla í Skautahöllinni í Reykjavík. 

Með tapinu er ljóst að Ísland spilar um 5.-8. sæti mótsins, en með sigri eða jafntefli hefði íslenska liðið farið í undanúrslit og spilað um verðlaun. Íslenska liðið lék ágætlega í dag, en markmaður Tyrkja átti góðan leik. 

„Við fengum fullt af færum og nægilega mikið af þeim til að vinna leikinn. Það sem við getum helst bætt eru brottvísanirnar. Við fengum allt of margar og þeir refsuðu okkur. Fimm á móti fimm vorum við betra liðið.“

Jussi segir sitt lið hafa fengið of margar brottvísanir á mótinu og það hafi sína skýringu. 

„Það er erfitt að fara inn í svona mót fyrir leikmenn sem spila í deildinni hérna heima. Dómgæslan er ekki nálægt því jafn góð hérna heima og leikmennirnir vita ekki hvað þeir mega og hvað ekki. Þetta er sama sagan með öll íslensk landslið, líka A-landslið. Dómgæslan er einfaldlega ekki nógu góð heima og það hefur áhrif á okkur.“

Eins og gefur að skilja er Finninn ekki ánægður með að missa af möguleikanum á að ná í verðlaun. 

„Við ættum að vera að spila um medalíu núna, en það eru ekki alltaf bestu liðin sem fara áfram,“ sagði Sipponen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert