Heimavöllurinn er til góða

Patrick Mahomes hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína sem …
Patrick Mahomes hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína sem leikstjórnandi Kansas City Chiefs AFP

Undanúrslitaleikirnir í NFL-ruðningsdeildinni fara fram á sunnudaginn kemur, en sigurvegararnir leika síðan um meistaratitilinn í Ofurskálarleiknum svokallaða 3. febrúar í Atlanta.

Reglur NFL-deildarinnar gefa tveimur efstu liðunum í Lands- og Ameríkudeild bestu tækifærin á að komast í lokaúrslitin þar sem þau sitja hjá í fyrstu umferð og þurfa aðeins að vinna tvo heimaleiki til að komast í Ofurskálarleikinn. Það er því mikill akkur fyrir toppliðin að ná í eitt af þessum sætum.

Vegna strangra regla um launaþak NFL-deildarinnar er erfitt fyrir forráðamenn bestu liðanna að halda í marga lykilleikmenn. Þess vegna skiptir svo oft um toppliðin í úrslitakeppninni ár hvert. Þetta gefur stuðningsfólki margra liða allavega von um að uppáhaldslið þeirra eigi tækifæri á að komast í meistarabaráttuna þegar leiktímabilið hefst – ólíkt því sem knattspyrnuáhugafólk flestra liða í atvinnudeildum Evrópu reynir ár hvert.

Afraksturinn af þessum reglum er að mjög erfitt er fyrir meistaraliðin að verja titilinn. Það hefur engu liði tekist síðan New England Patriots varði hann 2005.

Nýliðinn tekur af skarið

Í Ameríkudeildinni varð fljótt ljóst að Kansas City Chiefs yrði með firnasterkt lið, en nýliðinn Patrick Mahomes kom mörgum á óvart með frábærum leik í stöðu leikstjórnandans. Liðið bakkaði upp þessar væntingar í átta liða úrslitunum með stórsigri á Indianapolis Colts, 31:13, á laugardag á Arrowhead-leikvanginum í Kansas City. Mahomes virðist vera mikill framtíðarmaður hjá Chiefs og gæti verið sá maður sem liðið hefur verið að leita að í leikstjórnendastöðunni í langan tíma.

Af öllum liðum Ameríkudeildar var það þó Los Angeles Chargers sem kom mest á óvart. Liðið var flutt af eigendum frá San Diego til Los Angeles síðasta sumar eftir að skattgreiðendur í San Diego höfnuðu í atkvæðagreiðslu að greiða lungann af kostnaði fyrir nýjan leikvang Chargers. Eigandi liðsins tók því leikfang sitt í tveggja tíma akstur upp Kyrrahafsströnd til Los Angeles, en enginn stór leikvangur var tilbúinn að taka við liðinu hér í borg. Chargers lék því alla heimaleiki sína á knattspyrnuleikvangi Los Angeles Galaxy sem tekur aðeins um 27.000 manns í sæti.

Hinn 41 árs gamli Tom Brady.
Hinn 41 árs gamli Tom Brady. AFP

Flestum sama um Chargers

Ruðningseðjótum hér í Los Angeles var flestum sama um lið Chargers þar sem Rams-liðið hafði flutt hingað árinu áður frá St. Louis, en Rams hafði verið aðal NFL-liðið hér í bæ frá 1947 til 1994 þegar það var flutt til St. Louis. Af þeim sökum virtist oft í deildakeppnisleikjum sem Chargers væru að leika á útivelli í heimaleikjum sínum, en stuðningsfólk andstæðinganna keypti oft stóran hluta miðanna á þá leiki.

Þrátt fyrir alla þessa erfiðleika vann Chargers tólf af sextán leikjum sínu og það gaf þeim tækifæri á að heimsækja New England Patriots í átta liða úrslitunum á sunnudag.

New England hefur verið í toppbaráttunni í deildinni síðustu tvo áratugi eftir að liðið fékk leikstjórnandann Tom Brady í háskólavalinu árið 2000 og það sýndi sig í leik liðanna. Leikreynsla Patriots var augljós frá upphafi leiksins – þrátt fyrir að flestir svokallaðir NFL fjölmiðlasérfræðingarnir veðjuðu á Chargers í þessum leik. Heimamenn náðu 35:7 forystu í hálfleik og sigur Patriots, 41:38, var aldrei í hættu.

Sigurlaun New England verða ferðalag til Kansas City að keppa um sæti Ameríkudeildarinnar í Ofurskálarleiknum. Þann leik ætti heimaliðið að vinna, en Tom Brady (nú 41 árs gamall) og félagar hans í New England hafa leikið níu ár í röð í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar og það gæti komið liðinu til góða.

Dýrlingar vakna til lífsins

Í Landsdeildinni varð fljótlega ljóst að New Orleans Saints og Los Angeles Rams væru tvö bestu liðin þótt bæði Chicago Bears og Dallas Cowboys hefði vaxið ásmegin eftir því sem á deildakeppnina leið. Þegar í úrslitakeppnina kom þróuðust hlutirnir í Landsdeildinni rétt eins og í Ameríkudeildinni. Toppliðin tvö sýndu styrkleika sinn með sigrum á heimavelli.

Hér í Los Angeles tók Rams á móti Dallas Cowboys á Ólympíuleikvanginum gamla á laugardagskvöld – en Rams mun leika á eitt keppnistímabilið í viðbót á honum meðan nýr leikvangur er byggður við hliðina á Forum-höllinni gömlu suður af miðbænum. Heimamenn komust í 20:7 forystu í hálfleik og áttu í litlum erfiðleikum að innbyrða sigur, 30:22, í seinni hálfleiknum.

New Orleans Saints átti í mestu erfiðleikum heimaliðanna um helgina þegar meistarar Philadelphia Eagles mættu í Benz-höllina við Mexíkóflóann í síðasta leik helgarinnar á sunnudagskvöld. Philadelphia mætti vel stemmt til leiks, náði 14:0 forystu í fyrri hálfleiknum, en heimamenn Saints klóruðu sig hægt og sígandi inn í leikinn. Þeir náðu tíu stigum fyrir hálfleik og bættu öðrum tíu við í þeim seinni, á sama tíma og varnarliðið lokaði á sóknarlið Eagles. Lokatölurnar 20:14 fyrir Saints í spennandi leik.

Það verður því Los Angeles Rams sem mun fljúga austur á sunnudag til New Orleans og reyna að hefna tíu stiga taps í leik þessara liða í nóvember. Ómögulegt er að spá í úrslitin hér, enda hnífjöfn lið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert