Ísland missti af sæti í undanúrslitum

Íslenska U20 ára landslið karla í íshokkíi leikur ekki um verðlaun í C-deild heimsmeistaramótsins. Þetta varð ljóst eftir 4:2-tap fyrir Tyrklandi í lokaleik liðsins í A-riðli í Skautahöll Reykjavíkur í dag. Ísland leikur þess í stað um 5.-8. sæti mótsins. 

Tyrkneska liðið fór betur af stað og skapaði sér nokkuð af færum áður en Unnar Rúnarsson þurfti að fara af velli í tvær mínútur vegna mistaka við skiptingu íslenska liðsins. Tyrkland nýtti sér liðsmuninn um leið og skoraði fyrsta mark leiksins á áttundu mínútu en það gerði Hakan Salt.

Íslenska liðið var fljótt að svara því aðeins þremur mínútum síðar var staðan orðin 1:1. Heiðar Kristveigarson skoraði þá með glæsilegu skoti úr þröngu færi og var staðan eftir fyrsta leikhlutann jöfn.

Annar leikurinn var mjög svipaður. Hakan Salt kom Tyrkjum í 2:1 á 24. mínútu en í þetta skiptið tók það Ísland aðeins mínútu að jafna og aftur var það Heiðar Kristveigarson. Markið kom þegar Ísland var manni færra. Staðan eftir annan leikhluta var því 2:2.

Tyrkir komust yfir í þriðja sinn á 47. mínútu er Firat Afsin tók frákast og skoraði á meðan íslenska liðið var manni færra. Íslenska liðið sótti án afláts það sem eftir lifði leiks en þrátt fyrir það voru það Tyrkir sem skoruðu síðasta markið í blálokin og þar við sat. 

Ísland U20 2:4 Tyrkland U20 opna loka
60. mín. Ísland U20 Textalýsing Ótrúlegt að jöfnunarmarkið er ekki komið. Rosalega þung sókn síðustu mínútur. Nú tekur Jussi Sipponen leikhlé, um 30 sekúndum fyrir leikslok.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert