Skipst á sigrum í Neskaupstað

Tinna Rut Þórarinsdóttir í liði Þróttar reynir að smassa boltann …
Tinna Rut Þórarinsdóttir í liði Þróttar reynir að smassa boltann í gólfið hjá Álftnesingum. Ljósmynd/Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir

Þróttur úr Neskaupstað og Álftanes mættust í gær í Mizuno-deildum kvenna og karla í Neskaupstað og félögin skiptu með sér sigrunum.

Álftanes vann kvennaleikinn nokkuð sannfærandi, 3:0, þar sem hrinurnar enduðu 25:15, 28:26 og 25:21. Erla Rán Eiríksdóttir var með 21 stig fyrir Álftanes og Ragnheiður Tryggvadóttir 9 en hjá Þrótti var Tinna Rut Þórarinsdóttir með 12 stig og Særún Birta Eiríksdóttir 8.

Þróttarkonur eru með 13 stig í fjórða sæti deildarinnar en Álftanes situr í sjöunda og neðsta sætinu með 6 stig.

Þróttarar fagna stigi í leik karlaliðanna.
Þróttarar fagna stigi í leik karlaliðanna. Ljósmynd/Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir

Karlaleikinn unnu Þróttarar hins vegar 3:1 þar sem tvær síðari hrinurnar voru hörkuspennandi. Þróttur vann 25:16 og 25:19 í tveimur þeim fyrstu, Álftanes þá þriðju 25:23 og Þróttur þá fjórðu 26:24.

Miguel Ramos skoraði 23 stig fyrir Þrótt og Galdur Máni Davíðsson 15. Hjá Álftanesi var Gunnar Pálmi Hannesson með 15 stig, Ragnar Már Garðarsson 11 og Austris Bukovskis 11.

Þróttur náði þar í annan sigur sinn á tímabilinu en situr á botninum með 6 stig. Álftanes er í þriðja sæti af fimm liðum í karladeildinni með 12 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert