Rams komið í úrslitaleikinn

Hvítklæddir leikmenn Los Angeles Rams fagna í leiknum í kvöld.
Hvítklæddir leikmenn Los Angeles Rams fagna í leiknum í kvöld. AFP

Los Angeles Rams sigraði New Orleans Saints á útivelli, 26:23, í framlengdum úrslitaleik Þjóðardeildarinnar í NFL-ruðningnum í kvöld og er þar með komið í Ofurskálarleikinn, Super Bowl, sem fer fram eftir hálfan mánuð.

Rams er fyrsta liðið í sex ár sem tryggir sér meistaratitil í annarri hvorri deild NFL með því að sigra á útivelli en leikið var á heimavelli Saints þar sem liðið var með betri útkomu á tímabilinu. Saints komst í 13:0 í leiknum í kvöld en Rams sneri dæminu algjörlega við í seinni hálfleiknum.

Rams mætir annaðhvort Kansas City Chiefs eða New England Patriots í úrslitaleiknum en viðureign þeirra um meistaratitil Ameríkudeildarinnar stendur nú yfir í Kansas City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert