Íslandsbikar á loft á Akureyri

HK og KA hafa mæst í mörgum hörkuleikjum í vetur. …
HK og KA hafa mæst í mörgum hörkuleikjum í vetur. Í dag kemur í ljós hvort þeirra verður Íslandsmeistari. mbl.is/Hari

Í dag kemur í ljós hvort það verður KA eða HK sem hlýtur nafnbótina Íslandsmeistari kvenna í blaki árið 2019 en liðin mætast í hreinum úrslitaleik í KA-heimilinu á Akureyri og hefst hann klukkan 16.

Staðan í einvíginu er 2:2 en KA vann tvo fyrstu leikina og virtist með titilinn í hendi sér. Fyrst 3:0 í Kópavogi og síðan 3:1 á Akureyri. En HK svaraði fyrir sig, vann þriðja leikinn á Akureyri, 3:1, og þann fjórða í Kópavogi á miðvikudagskvöldið síðasta, 3:1.

Þessi tvö lið höfðu mikla yfirburði í Mizuno-deild kvenna í vetur og voru nánast hnífjöfn. Bæði unnu þau 16 af 18 leikjum sínum en KA endaði með 49 stig og HK með 48 stig og Akureyrarliðið varð því deildarmeistari og náði heimaleikjaréttinum.

Þá varð KA bikarmeistari fyrr í vetur með því að sigra HK í úrslitaleik keppninnar.

Hvorugt liðanna kom við sögu í úrslitaeinvíginu fyrir ári síðan en þá varð Þróttur frá Neskaupstað Íslandsmeistari með því að sigra Aftureldingu 3:0 í úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert