Þriðja Íslandsmetið hjá Antoni Sveini

Anton Sveinn McKee í metsundinu á HM í nótt.
Anton Sveinn McKee í metsundinu á HM í nótt. Ljósmynd/Simone Castrovillari

Eftir að hafa þegar bætt tvö Íslandsmet í sama sundinu í HM í 50 metra laug í Gwangju í Suður-Kóreu bætti Anton Sveinn þriðja metinu við í nótt þegar hann keppti í 50 metra bringusundi.

Anton Sveinn synti á tímanum 27,46 sekúndum og bætti Íslandsmetið um 20/100 úr sekúndu. Hann endaði í 20. sæti í greininni og náði ekki inn í milliriðla, en til þess hefði hann þurft að synda á 13/100 úr sekúndu betur.

Met hans í 50 metra laug stóð því ekki lengi, en hann sló það á sunnudag þegar hann synti á millitímanum 27,66 sekúndum í 100 metra bringusundinu, þar sem hann sló einnig metið á tímanum 1:00,32 mínútum.

Anton fer nú að undirbúa sig fyrir 200 metra bringusundið á fimmtudag og segir hann að það sé jákvætt að finna hraðan og kraftinn sem hann hefur. Nú sé að nýta það sem best fyrir 200 metrana.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppti einnig á HM í nótt og stakk sér til sunds í fyrsta sinn. Hún keppti í 200 metra skriðsundi og tími hennar var 2:07,43 mínútur, sem er nokkuð frá hennar besta. Íslandsmet hennar frá því í fyrra er 2:01,82 mínútur. Hún hafnaði í 41. sæti í sundinu.

Snæfríður átti ágæta byrjun og eftir 100 metra var tíminn hennar 58,34 sekúndur, en í síðasta legg sundsins dró heldur af henni, hún missti hraðann og taktinn í sundinu, þannig að hún var um níu sekúndum hægari á síðari hlutanum en þeim fyrri.

Snæfríður keppir í 100 metra skriðsundi á fimmtudag.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir í lauginni á HM í nótt.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir í lauginni á HM í nótt. Ljósmynd/Simone Castrovillari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert