Júdófélag Reykjavíkur fagnaði sigri sjöunda árið í röð

Sigurvegarar í sveitakeppni Júdósambands Íslands.
Sigurvegarar í sveitakeppni Júdósambands Íslands. Ljósmynd/Júdósamband Íslands

Sveitakeppni Júdósambands Íslands fór fram um nýliðna helgi en keppnin hefur verið haldin frá árinu 1974. Þetta því í 46. skiptið sem keppnin fer fram en tvisvar á þessu tímabili hefur þurft að fella hana niður vegna veðurs.

Þrjár sveitir voru skráðar til leiks í sveitakeppni karla og var keppt í einum riðli og allir við alla. Sveit Júdófélags Reykjavíkur endaði með 9 vinninga og hlaut 90 tæknistig og stóð uppi sem sigurvegari sjöunda árið í röð. Júdófélag Reykjavíkur jafnaði þar með Ármenninga en bæði félög hafa unnið keppnina 19 sinnum.

Selfoss hafnaði í öðru sæti með 4 vinninga og 31 tæknistig og í þriðja sæti varð B-sveit Júdófélags Reykjavíkur sem fékk 2 vinninga og 11 tæknistig.

Í flokki keppenda yngri en 21 árs voru aðeins tvær sveitir skráðar til leiks. Voru það sveitir JR og Selfoss. Keppni sveitanna var mjög jöfn en JR sigraði með 3 vinningum og 30 tæknistigum gegn 2 vinningum 20 tæknistigum.

Í flokki keppenda yngri en 15 ára voru fjórar drengjasveitir skráðar til leiks og tvær stúlknasveitir. Hjá drengjunum sigraði sveit JR með 11 vinningum og 110 tæknistigum, í öðru sæti var sveit Selfoss með 8 vinninga og 62 tæknistig og í þriðja sæti var sveit Þróttar í Vogum með 6 vinninga og 60 tæknistig. Hjá stúlkunum mætust sveitir JR og UMFN og sigraði sveit JR 4:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert