Afreksfólk í íþróttum krefst réttinda

Dominiqua Alma Belányi er formaður íþróttamannanefndar ÍSÍ.
Dominiqua Alma Belányi er formaður íþróttamannanefndar ÍSÍ. Ljósmynd/FSÍ

Stór hópur af íslensku afreksíþróttafólki hefur sent frá sér yfirlýsingu um stöðu sína og réttindi í samfélaginu.

Með henni er send beiðni til mennta- og menningarmálaráðuneytis og þeirra er málið varðar um að vinna í launa- og réttindamálum íslensks afreksíþróttafólks og koma þeim í réttan farveg, eins og í öðrum stéttum samfélagsins.

Yfirlýsingin er stíluð á Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og þá sem málið varðar, eins og það er orðað í yfirskriftinni.

Undir hana skrifar Dominiqua Alma Belánýi, fimleikakona og formaður íþróttamannanefndar ÍSÍ ásamt hópi af afreksfólki úr ýmsum íþróttagreinum. 

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Síðastliðinn áratug hefur íslenskt afreksíþróttafólk reglulega stigið fram opinberlega og talað um slæma fjárhags- og réttindastöðu sína. Afreksíþróttafólk hefur fengið árangurstengda styrki frá Afrekssjóði ÍSÍ og oftar en ekki eru þessir styrkir eina innkoma afreksíþróttafólks til þess að fjármagna keppnis- og æfingaferðir.

Styrkir sem þessir eru ekki skilgreindir sem laun, svo að afreksíþróttafólk vinnur sér ekki inn réttindi á meðan á ferlinum stendur. Flest íslenskt afreksíþróttafólk reynir að vinna til að standa undir kostnaði við íþrótt sína, á meðan keppninautar þess á heimsvísu geta helgað sig sinni íþrótt. Til þess að komast á heimsmælikvarða þarf íþróttin að vera atvinna einstaklingsins og torgert er að vera í fullu starfi á meðan á ferlinum stendur.

Eftir íþróttaferilinn stendur margt íslenskt afreksíþróttafólk uppi með skuldir á bakinu og réttindalaust. Afreksíþróttafólk hefur ekki lífeyrisréttindi, stéttarfélagsaðild, atvinnuleysisbætur, aðgengi að sjúkra- og starfsmenntasjóði, né réttindi til fæðingarorlofs svo eitthvað sé nefnt.

Nú á árinu hefur hver afreksíþróttamanneskjan á fætur annarri stigið fram og tjáð sig um að staðan sé ekki góð, að erfitt sé að æfa og keppa á heimsmælikvarða án launa og réttinda. Undirritaðir senda nú beiðni til mennta- og menningarmálaráðuneytis og þeirra er málið varðar að vinna í launa- og réttindamálum íslensks afreksíþróttafólks og koma því í réttan farveg, eins og þau eru í öðrum stéttum samfélagsins.

Við erum fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi, sameiningartákn þjóðarinnar og sterkar fyrirmyndir. Við viljum halda áfram að gera Íslendinga stolta og iðka íþróttir á heimsmælikvarða. Það er ekki hægt ef við höfum ekki almenn réttindi. Nú er kominn tími til breytinga.

Virðingarfylllst,
Dominiqua Alma Belányi, formaður íþróttamannanefndar ÍSÍ

Anton Sveinn McKee, sund
Arna S. Guðmundsdóttir, frjálsar íþróttir
Arnar Davíð Jónsson, keila
Ásdís Hjálmsdóttir, frjálsar íþróttir
Ágústa Edda Björnsdóttir, hjólreiðar
Ari Bragi Kárason, frjálsar íþróttir
Eygló Ósk Gústafsdóttir, sund
Fanney Hauksdóttir, kraftlyftingar
Guðbjörg J. Bjarnadóttir, frjálsar íþróttir
Guðni Valur Guðnason, frjálsar íþróttir
Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþraut
Hafdís Sigurðardóttir, frjálsar íþróttir
Hildur Björg Kjartansdóttir, körfubolti
Hlynur Andrésson, frjálsar íþróttir
Jón Margeir Sverrisson, sund og hlaup
Júlían J. K. Jóhannsson, kraftlyftingar
Kári Gunnarsson, badminton
Sólveig Bergsdóttir, hópfimleikar
Sturla Snær Snorrason, skíði
Sveinbjörn Jun Iura, júdó
Valgarð Reinhardsson, áhaldafimleikar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert