Bergrún og Már íþróttafólk ársins

Már Gunnarsson og Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir eru íþróttafólk ársins hjá …
Már Gunnarsson og Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir eru íþróttafólk ársins hjá ÍF. mbl.is/Bjarni Helgason

Frjálsíþróttakonan Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir og sundkappinn Már Gunnarsson voru í dag valin íþróttafólk ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra á hátíðarathöfn sambandsins sem fram fór á Hótel Sögu í Reykjavík.

Már gerði sér lítið fyrir og setti 28 Íslandsmet á árinu sem er að líða. Þá fékk hann bronsverðlaun í 100 metra baksundi á HM í London en hann er eini Norðurlandabúinn sem vann til verðlauna á mótinu. Þá synti hann undir þremur gildandi heimsmetum á Íslandsmótinu í sundi í 25 metra laug sem fram fór í Ásvallalaug en beðið er eftir því að metin verði staðfest.

Bergrún Ósk átti einnig frábært ár og hafnaði í fimmta sæti í langstökki á HM í Doho í Katar þar sem hún stökk lengst 4,26 metra og bætti í leiðinni sinn besta árangur í greininni. Bergrún var einnig valin íþróttakona ársins 2018 en þá gerði hún sér lítið fyrir og varð heimsmeistari unglinga en hún er 19 ára gömul.

Íþróttakennarinn Ásta Katrín Helgadóttir fyrir miðju.
Íþróttakennarinn Ásta Katrín Helgadóttir fyrir miðju. Ljósmynd/ÍF

Ásta Katrín hlaut Hvataverðlaun ÍF

Þá hlaut íþróttakennarinn Ásta Katrín Helgadóttir Hvataverðlaun ÍF en hún hefur starfað með ÍF undanfarna áratugi. Árið 2015 hóf ÍF innleiðingu verkefnisins YAP eða Young Athlete Project sem er alþjóðlegt verkefni á vegum Special Olympics-samtakanna. YAP hefur að markmiði að stuðla að snemmtækri íhlutun á sviði hreyfifærni, sérstaklega fyrir börn með sérþarfir eða frávik.

Ísland hefur farið þá leið að leita samstarfs við leikskóla og heilsuleikskólinn Skógarás, Ásbrú hefur verið leiðandi samstarfsaðili frá upphafi. Í starfi sínu þar sem íþróttakennari hefur Ásta Katrín sýnt frumkvæði og leitt innleiðingarferlið með markvissri hreyfiþjálfun og rannsóknum á árangri. Hún hefur náð að tengja hugmyndafræði YAP við dagleg verkefni og nám í samstarfi við leikskólakennara og með virkum stuðningi leikskólastjórans, Þóru Sigrúnar Hjaltadóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert