Sá besti sendur í burtu fyrir slikk

Emmanuel Sanders í Ofurskálarleiknum 2020 með San Francisco. Hann er …
Emmanuel Sanders í Ofurskálarleiknum 2020 með San Francisco. Hann er kominn til New Orleans Saints. AFP

Á meðan kórónuveirufaraldurinn skekur íþróttaheiminn jafnt sem alla aðra heima hefur leikmannamarkaður NFL-deildarinnar rúllað áfram. Stjörnuleikmönnum síðustu ára hefur verið skipt á milli liða, nú eða bara sagt hypja sig. Þá hefur fyrrverandi meistari skipt um lið í annað sinn á nokkrum mánuðum.

Óafsakanleg ákvörðun

Þegar þjálfarar og aðrir stjórnendur innan raða NFL-liðanna setjast niður eftir að tímabilinu er lokið og undirbúa sig undir að leikmannamarkaðurinn fari á fullt vilja þeir oftast halda leikmönnum sem eru með þeim bestu í deildinni þar sem erfitt reynist oft að finna slíka leikmenn í nýliðavalinu og enn erfiðara að finna þá hjá öðrum liðum. Annað sem stjórnendur vilja forðast er að fá til sín leikmenn á of launaháum samningi sem þar með taka of mikið pláss á launaskránni undir launaþaki deildarinnar.

Svo að jafnvel ef lið vill losa þig við einn besta mann deildarinnar í skiptum við annað lið er það ekki gert nema liðið fái tilboð sem erfitt er að hafna. Og hvað sem liðin gera mega þau ekki taka við leikmanni á allt of háum launum.

Houston Texans tókst í mánuðinum að gera bæði þessi mistök. DeAndre Hopkins sem síðustu þrjú árin hefur verið í hópi tveggja eða þriggja bestu útherja deildarinnar – og er af mörgum talinn sá besti – var skipt frá Houston Texans til Arizona Cardinals ásamt valrétti í fjórðu umferð nýliðavalsins. Í staðinn fengu Texans-hlauparann David Johnson, sem var einn besti leikmaður deildarinnar tímabilið 2016-'17 en hefur átt erfitt uppdráttar síðan, og valrétt í annarri umferð nýliðavalsins. Hafa gárungar vestanhafs klórað sér mikið í hausnum yfir þessum skiptum og virðist enginn skilja hvað Bill O‘Brien, framkvæmdastjóri og þjálfari Texans, var að hugsa.

Ekki er nóg með að Johnson hafi litlu skilað til Cardinals síðustu þrjú ár í deildinni (hann átti reyndar ágætistímabil 2018-19) heldur þurfa Texans að borga honum himinhá laun vegna samnings sem hann skrifaði undir við Cardinals árið 2018. Það mun reynast Texans dýrkeypt þar sem fyrrnefnt launaþak er óhaggandi og því minna svigrúm nú til að lokka aðra leikmenn til liðsins. Sögusagnir eru á lofti um að Hopkins hafi viljað nýjan samning en þrátt fyrir það er ákvörðunin nánast óafsakanleg. Og að láta fjórðu umferðar valrétt fylgja með til Cardinals fyllir mælinn hjá mörgum. Héldu Texans virkilega að Cardinals segði nei við að fá Hopkins og ekkert meir?

Á sama tíma fá Cardinals einn besta útherja deildarinnar á besta aldri fyrir hlaupara sem var á allt of háum launum. Stjórnendur liðsins hljóta að skála í kampavíni á hverjum degi þessa dagana og myndu örugglega slá upp til heljarinnar hátíðar væri kórónuveirufaraldurinn ekki við lýði. Á meðan situr leikstjórnandi Texans, hinn frábæri DeShaun Watson, eftir með sárt ennið, búinn að missa sitt aðalvopn í sóknarleiknum.

Minnesota Vikings fóru ekki eins illa að ráði sínu þegar þeir skiptu frá sér útherjanum Stefon Diggs. Fékk liðið í raun mun meira frá Buffalo Bills, þangað sem Diggs var skipt, heldur en Texans frá Cardinals. Fékk Vikings valrétt Bills í fyrstu, fimmtu og sjöttu umferð nýliðavalsins, auk valrétts þeirra í fjórðu umferð á næsta ári. Þrátt fyrir þetta veit hvert einasta mannsbarn að DeAndre Hopkins er talsvert betri í að grípa egglaga bolta og hlaupa með þá fram hjá varnarmönnum en Stefon Diggs. Allir nema Bill O‘Brien greinilega.

Fallið af stjörnuhimnum

Í desember árið 2018 virtist sem ekkert fengi hlaupara Los Angeles Rams, Todd Gurley, stöðvað. Hann gerði lítið úr varnarmönnum deildarinnar um hverja helgi, var valinn besti sóknarmaður deildarinnar tímabilið 2017-'18 og átti eftir að vera valinn besti hlaupari deildarinnar annað árið í röð tímabilið 2018-'19. En 16. desember þetta tímabilið varð Gurley fyrir meiðslum á hné og þótt hann hafi ekki misst mikið úr vegna meiðsla hefur hann aldrei verið samur síðan. Hann átti erfitt uppdráttar í úrslitakeppninni og síðasta tímabil var framhald af því; frammistaðan var langt frá því sem áhorfendur hafa vanist af honum.

Rams riftu því samningi við hann á dögunum eftir að þeim tókst ekki að finna lið sem vildi fá hann til sín í skiptum enda Gurley á launaháum samningi sem hann skrifaði undir þegar allt lék í lyndi. Stuttu seinna skrifaði Gurley undir eins árs samning við Atlanta Falcons en gárungar vestanhafs hafa gefið í skyn að ósætti hafi orðið á milli Gurley og Sean McVay, þjálfara Rams, á síðasta tímabili.

Sorglegt er hvernig Gurley hefur fallið af stjörnuhimninum á skömmum tíma en hann hefur verið meðal vinsælustu leikmanna deildarinnar síðustu ár. Skaðvaldurinn er talinn vera gigt í vinstra hné Gurley sem gerði fyrst vart við sig á háskólaferli hans og því aðeins tímaspursmál hvenær meiðlsin tæku sig upp aftur.

Að lokum má nefna að New Orleans Saints gerðu tveggja ára samning við hinn 33 ára gamla útherja, Emmanuel Sanders, sem lengst af lék með Denver Broncos, þar sem hann vann Ofurskálina 2016, en var skipt til San Francisco 49ers um mitt síðasta tímabil. Hann mun reynast góð viðbót við lið Saints og mynda ógnvænlegt útherjapar með hinum sterka Michael Thomas. Saints eru með sterkt lið og gera tilkall til þess að komast í leikinn um Ofurskálina á næsta tímabili þó ekki hafi gengið sem skyldi hjá liðinu á því síðasta. Hinn magnaði Drew Brees mun hefja sitt 20. tímabil í deildinni í haust og ætlar sér örugglega að bæta fyrir svekkjandi töp í úrslitakeppninni síðustu þrjú árin.

Eins og sjá má hafa aðdáendur NFL-deildarinnar haft úr nógu úr að moða síðustu misseri þótt lítið sé á döfinni í íþróttaheiminum á þessum ótrúlegu tímum. Hafa því ruðningsunnendur nægan tíma til að velta sér upp úr því hvernig liðin munu líta út með nýja leikmenn og hvert þeir fari sem enn hafa ekki fundið sér lið. Þegar þetta er skrifað er enn ráðgert að nýliðavalið fari fram í lok apríl en þar geta orðið skemmtilegar vendingar eins og oft áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert