Kynþáttagrýlan verkaði ekki meir

Jesse Owens í 200 metra hlaupinu á Ólympíuleikunum í Berlín.
Jesse Owens í 200 metra hlaupinu á Ólympíuleikunum í Berlín. AP

Bandaríkjamaðurinn Jesse Owens kom, sá og sigraði á Ólympíuleikunum í Berlín sumarið 1936 en hann varð sem kunnugt er hlutskarpastur í 100 og 200 metra hlaupi, langstökki og 4x100 metra hlaupi. Talsvert var fjallað um afrek hans í blöðum hér á landi á þeim tíma.

Morgunblaðið gerði afrek Owens betur upp að leikunum loknum og kom þar fram að öllum bæri saman um að hann væri „glæsilegasti íþróttamaðurinn á Olympíuleikunum“. „Hann er Bandaríkjamaður og fyrstu fjóra daga leikanna vann hann þrjá gullpeninga, þ.e. hann var sigurvegari í þrem íþróttagreinum.“

Sérstaklega var vikið að langstökkinu.

„Á þriðja degi setti hann nýtt Olympíumet í langstökki og stökk 8.06 metra. Olympíumetið var áður 7.73 m. Strax í fyrsta stökkinu stökk. Owens 7.74 m. og tók forustuna með nýju meti. Næst stökk hann 7.87 m. Fimm mínútum síðar stökk Þjóðverjinn Long 7.84 m. og ætlaði fagnaðarlátunum af áhorfendapöllunum þá aldrei að linna; hann var ekki nema 3 cm. á eftir svertingjanum. Í fimtu umferð náði Long svertingjanum, stökk nákvæmlega 7.87 m.
Áhorfendurnir grjetu af fögnuði. Blaðamennirnir voru forviða og góndu. Aðeins einn maður misti ekki taumhald á sjálfum sjer – Owens. Hann flýtti sjer til Þjóðverjans og tók í hendina á honum. Síðan bjó hann sig undir að stökkva og áhorfendur hjeldu niðri í sjer andanum af eftirvæntingu. Owens stökk – og kom niður ekki fjarri 8 metra markinu. Stökkið var mælt: 7.94 m. Owens stökk einu sinni enn. Þegar hann rak niður fæturna í sandgryfjuna dundu samstundis við óhemju fagnaðarlæti. Áhorfendur höfðu sjeð, að nýtt glæsilegt met var sett. Skömmu síðar tilkynti kallarinn að Owens hefði stokkið 8.06 m.“

Afsannaði kynþáttakenninguna

Rauði fáninn, málgagn verkalýðsæsku bæja og sveita, fjallaði ítarlega um ævi og feril Jesse Owens um haustið og þar sagði meðal annars:

„Hinir nasistisku „Ólympsskipuleggjendur vildu umfram allt gera leikana að sigurför „aríanna“; umfram allt „sanna“ kynþáttadelluna um yfirburði þeirra yfir aðra menn. En leikarnir fóru á annan veg! Þeir afsönnuðu kynþáttakenninguna gersamlega. Og það er negrastrákurinn Jesse Owens, sveitadrengurinn, skóburstarinn, lyftudrengurinn, blaðsalinn, garðyrkjumaðurinn, dyravörðurinn og stúdentinn, sem á heiðurinn af því!“

Og enn fremur:

„Árangurslaust reyndu Nasistablöðin að deyfa hrifninguna yfir Jesse. Hann var orðinn uppáhald allra, hvar sem hann kom í Berlín. – Kynþáttagrýla Hitlers verkaði ekki meir á fólkið heldur en grýlusaga á íslenska nútímamenn. Afrek Jesse og hinna svörtu félaga hans höfðu gersamlega ónýtt Ólympsfyrirætlanir Nasista á sviði kynþátta-„kenningarinnar“.“

Nánar er vikið að umfjöllun íslenskra blaða um Jesse Owens árið 1936 í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert