Umfangsmiklar stuðningsaðgerðir í bígerð

Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason
Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason mbl.is/Hari

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, þess efnis að ráðist verið í umfangsmiklar aðgerðir til að koma til móts við íþrótta- og æskulýðsfélög landsins vegna þeirrar miklu röskunar sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á starf þeirra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytunum í dag og segir þar að meðal aðgerða sem ráðist verður í er að íþróttafélögum eða samstarfsaðilum ÍSÍ, sem er gert að láta af starfsemi sinni vegna sóttvarna, geti sótt um styrki vegna launagreiðslna til starfsmanna sem ekki geta sinnt starfi sínu á því tímabili sem sóttvarnaaðgerðir standa yfir.

Þá verður íþrótta- og æskulýðsfélögum, ásamt sambandsaðilum ÍSÍ, gert kleift að sækja um sérstaka styrki vegna tekjufalls á tímabilinu 1. júní sl. til 1. október sl. Einnig verður þessum aðilum gert kleift að sækja um styrki vegna verktakakostnaðar frá 1. október sl. og þar til starfsemi hreyfingarinnar kemst í eðlilegt horf.

„Þátttaka barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi hefur góð og þroskandi áhrif á þau. Það er mikilvægt að öll börn eigi þess kost að stunda íþróttir en ljóst er að þær sóttvarnaraðgerðir sem við höfum þurft að grípa til hafa haft mikil áhrif á starfsemi íþróttafélaga og þykir því gríðarlega brýnt að við ráðumst í mótvægisaðgerðir, ekki síst í því skyni að tryggja að sem minnstar raskanir verði á íþróttastarfi barna til lengri tíma litið,“ er haft eftir Ásmundi Daða á heimasíðu Stjórnarráðsins um aðgerðirnar.

„Það er skynsamlegt fyrir okkur sem samfélag að verja fjármunum í íþróttahreyfinguna sem gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki þegar kemur að lýðheilsu þjóðarinnar. Sú fjárfesting skilar sér margfalt fyrir samfélagið allt til lengri tíma.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert