Hlutirnir að smella saman hjá Ernu

Erna Sóley Gunnarsdóttir.
Erna Sóley Gunnarsdóttir. Ljósmynd/FRÍ

Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR náði langbesta árangri íslenskrar konu í kúluvarpi frá upphafi á sunnudaginn þegar hún vann yfirburðasigur í greininni á háskólamóti innanhúss í Birmingham í Alabama-ríki í Bandaríkjunum.

Erna kastaði kúlunni 16,95 metra og bætti eigið Íslandsmet innanhúss um 76 sentimetra. Fyrra metið sem hún setti í Houston í Texas í janúar 2020 var 16,19 metrar.

„Ég hafði verið að kasta frekar langt á æfingum og sá fyrir mér að ég gæti náð að bæta mig. Það var markmiðið en það kom mér smá á óvart að ég skyldi ná að kasta þetta langt,“ sagði Erna þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar.

Lítið varð úr keppnistímabilinu í fyrra og því var ef til vill erfiðara fyrir Ernu Sóleyju að vita hvar hún stæði nú í upphafi árs. En hún hafði hins vegar góða tilfinningu, meðal annars vegna þess að hún hefur sinnt styrktarþjálfuninni mjög vel að eigin sögn. „Ég er búin að lyfta alveg gríðarlega mikið og hef lagt áherslu á að styrkja mig. Það hefur gert mikið fyrir mig. Covid setti mikið strik í reikninginn og það var erfitt að vinna að því að bæta sig þegar ekki var hægt að æfa í langan tíma. En loksins eru hlutirnir að smella saman.“

Erna er með þjálfara hjá skólaliðinu og hér heima hjá ÍR er hún undir handleiðslu Péturs Guðmundssonar. Hann er einmitt Íslandsmethafi í greininni hjá körlunum og Íslandsmethafarnir í kúluvarpi eru því að vinna saman. Hvað frammistöðumarkmið varðar segir Erna það vera hæfilegt markmið á þessu ári að komast yfir 17 metrana og gera það oftar en einu sinni.

„Markmiðið í sumar er að ná yfir 17 metrana og ná því stöðugt. Þá gæti skapast sá möguleiki að vera á meðal 32 efstu í heiminum og ná inn á Ólympíuleikana í sumar. Til þess þyrfti ég þá væntanlega að kasta nokkuð langt yfir 17 metrana.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert