Félagsskapurinn sem stendur upp úr

„Þegar allt kemur til alls er það félagsskapurinn sem stendur upp úr,“ sagði Anton Sveinn McKee, margfaldur Íslandsmeistari í sundi og þrefaldur Ólympíufari, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Anton Sveinn, sem er 27 ára gamall, byrjaði að æfa sund þegar hann var fimm ára gamall en hann er fremsti sundmaður landsins í dag.

Hann byrjaði að skara fram úr í sundinu í kringum framhaldsskólaaldurinn en hann hefur keppt árlega á stórmótum í sundi frá árinu 2012.

„Maður á dýrmætar minningar frá þessum stórmótum og auðvitað getur maður hugsað til baka til einhverra móta þar sem allt gekk vel og maður náði góðum árangri,“ sagði Anton.

„Þegar ég horfi samt til baka þá er ég ekki að hugsa um einhvern sérstakan árangur sem stendur upp úr heldur er það meira bara hversu gaman það var að upplifa alla þessa hluti með frábæru fólki,“ sagði Anton.

Viðtalið við Anton Svein í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert