„Konur eru konum bestar og allt það“

„Ég hef mjög oft rætt þetta við fólk sem hefur verið í sömu aðstæðum og ég,“ sagði Andrea Sif Pétursdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í hópfimleikum, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Andrea Sif, sem er 26 ára gömul, byrjaði að æfa fimleika þegar hún var 4 ára gömul en hún skaraði ung fram úr í íþróttinni.

Hún var útnefnd fimleikakona ársins árin 2017, 2018 og 2020 og segist hafa fundið fyrir ákveðinni öfundsýki í sinn garð innan fimleikasamfélagsins.

„Eftir handboltaleiki er alltaf valinn maður leiksins og mér finnst bara eðlilegt að einstaklingar séu verðlaunaðir í hópíþróttum því það er auðvitað bara hvetjandi,“ sagði Andrea.

„Þetta var erfiðast fyrst, þegar fólk var ekki vant þessum einstaklingsverðlaunum, en ég var til dæmis valin í úrvalslið Evrópumótsins árin 2014, 2016 og 2018 og það var ekki oft sem mér var óskað til hamingju.

Stemningin var meira bara að sópa þessu undir teppið á þeim tíma en þetta er að lagast og fólk er farið að fagna með manni núna. Konum eru konum bestar og allt það,“ bætti Andrea við.

Viðtalið við Andreu Sif í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert