Hilmar og Thelma best á árinu

Thelma Björg Björnsdóttir og Hilmar Snær Örvarsson taka við viðurkenningum …
Thelma Björg Björnsdóttir og Hilmar Snær Örvarsson taka við viðurkenningum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hilmar Snær Örvarsson, 22 ára skíðamaður úr Víkingi, og Thelma Björg Björnsdóttir, 26 ára sundkona hjá ÍFR, eru íþróttafólk ársins 2022 úr röðum fatlaðra.

Umsögn Íþróttasambands fatlaðra um Hilmar:
Í annað sinn hlýtur skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson nafnbótina Íþróttamaður ársins. Hilmar var fyrst kjörinn árið 2020 en hlýtur nú titilinn fyrir sögulegan árangur fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu í vetraríþróttum og á vetrarólympíumótinu.

Á báðum mótum hafnaði Hilmar í 5. sæti í svigkeppni sem er besti árangur Íslands á báðum mótum. Á HM keppti hann líka í stórsvigi þar sem hann hafnaði í 21. sæti en á vetrarólympíumótinu féll hann úr leik í stórsvigskeppninni.  

Umsögn Íþróttasambands fatlaðra um Thelmu:

Í fimmta sinn á ferlinum hlýtur sundkonan Thelma Björg Björnsdóttir nafnbótina Íþróttakona ársins. Þar með er Thelma orðin sú íþróttakona sem næstoftast hefur hlotið nafnbótina á eftir sundkonunni Kristínu Rós Hákonardóttur sem varð tólf sinnum kjörin íþróttakona ársins.

Thelma náði mögnuðum árangri í sumar þegar hún vann til silfurverðlauna á heimsmeistaramóti IPC í Portúgal. Thelma varð þá önnur í 100m bringusundi SB5 á tímanum 1:58.23 mín.

Karl Þorsteinsson hlaut Hvataverðlaunin 2022.
Karl Þorsteinsson hlaut Hvataverðlaunin 2022. Ljósmynd/Íþróttasamband fatlaðra

Hvataverðlaunin 2022 – Karl Þorsteinsson

Síðustu fjóra áratugi hefur Karl sinnt störfum hjá sambandinu og átt veigamikinn þátt í uppgangi og vinsældum bocciaíþróttarinnar hér á landi. Karl hefur auk stjórnarsetu í íþróttafélaginu Ösp verið formaður boccianefndar ÍF og sem slíkur tekið þátt í undirbúningi og þátttöku Íslands í hinum ýmsu verkefnum sem tengjast bocciaíþróttinni á innlendum og erlendum vettvangi.

Þannig hefur hann verið fararstjóri vegna þátttöku Íslands á Norðurlandamótum fatlaðra í boccia, auk annarra móta á erlendum vettvangi, gengt formennsku undirbúningsnefndar vegna Norðurlandamóta í boccia sem haldin hafa verið hér á landi, setið sem fulltrúi Íslands í norrænum nefndum um framþróun bocciaíþróttarinnar, auk þess sem sannur sjálfboðaliði að vera boðinn og búinn til að leggja allri starfsemi ÍF lið.

Framlag hans til íþrótta fatlaðra í landinu verður aldrei kallað annað en ómetanlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert