Sérstök tilfinning að hafa tvo þeldökka leikstjórnendur í fyrsta sinn

Patrick Mahomes og Jalen Hurts.
Patrick Mahomes og Jalen Hurts. AFP/Kevin C. Cox og Tim Nwachukwu

Patrick Mahomes, leikstjórnandi Kansas City Chiefs í NFL-deildinni í ruðningi, segir að það verði sérstakt að taka þátt í Ofurskálarleiknum, úrslitaleik deildarinnar, um aðra helgi þar sem báðir leikstjórnendur liðanna verði dökkir á hörund í fyrsta sinn í sögunni.

Mahomes er þeldökkur líkt og Jalen Hurts, leikstjórnandi Philadelphia Eagles, sem verður mótherji Kansas í leiknum um Ofurskálina sunnudagskvöldið 12. febrúar.

„Að vera á heimssviðinu með tvo þeldökka leikstjórnendur í byrjunarliðinu finnst mér vera sérstakt,“ sagði Mahomes á blaðamannafundi í gær.

Hann mun taka þátt í sínum þriðja úrslitaleik um Ofurskálina þar sem hann stóð uppi sem sigurvegari gegn San Francisco 49ers árið 2020 en tapaði fyrir Tom Brady og félögum í Tampa Bay Buccaneers ári síðar.

Erum að skrifa söguna

Hurts tók í sama streng og Mahomes.

„Ég tel að við séum að skrifa söguna. Mér finnst þetta réttilega eiga heima í sögubókunum.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ég held að það hafi bara sjö þeldökkir leikstjórnendur spilað í Ofurskálar-leiknum þannig að það er frekar svalt að verða fyrstu til þess að taka þátt í þessu.

Ég er viss um að þetta verði góður leikur,“ sagði hann á blaðamannafundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert