Norðmenn vaða yfir alla eins og kakkalakkar

Anfisa Reztsova var afar sigursæl og fékk m.a. tvenn gullverðlaun …
Anfisa Reztsova var afar sigursæl og fékk m.a. tvenn gullverðlaun á vetrarólympíuleikunum í Lillehammer í Noregi árið 1994.

Anfisa Reztsova frá Rússlandi, fyrrverandi heims- og ólympíumeistari í skíðaskotfimi, vandar norsku íþróttafólki ekki kveðjurnar í viðtali við rússneska íþróttafjölmiðilinn Sport24.

Norðmenn hafa eins og aðrar Norðurlandaþjóðir lýst því yfir að það sé ekki tímabært að ræða mögulega endurkomu rússnesks íþróttafólks á stórmót eins og Ólympíuleikana 2024.

Nokkrir af helstu skíðaskotfimimönnum Noregs, svo sem Johannes Bö, Tarjei Bö, Sturla Holm Lærgreid, Ingrid Landmark Tandrevold og Marte Olsbu Röiseland hafa tekið undir þessa afstöðu Norðurlandaþjóðanna og sagt í viðtölum að þau vilji ekki sjá íþróttafólk frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi í keppni á meðan innrás Rússa í Úkraínu standi yfir.

Reztsova segir við Sport24 að í hreinskilni sagt hafi Norðmenn alltaf verið á móti Rússum. „Þar á ég við Bö-bræðurna og alla hina. Þetta kemur því ekkert á óvart. Við erum þeirra mestu keppinautar og munum alltaf verða sterkari en þeir. Þess vegna vilja þeir ekki að við keppum á alþjóðlegum mótum. Svona hefur þetta alltaf verið. Norðmenn vaða alltaf yfir alla eins og viðbjóðslegir kakkalakkar,“ segir Reztsova.

Önnur rússnesk fyrrverandi skíðaskotfimikona, Olga Zaitseva, tekur undir afstöðu Reztsovu en ekki af sama offorsinu. 

„Þessi ummæli íþróttafólksins skipta engu máli. Þau hafa engan rétt á að halda þessu fram því þau blanda  saman íþróttum og pólitík. Íþróttir eru ekki pólitík og það á  að aðskilja þetta tvennt. Íþróttir eru vettvangur friðar og þar eiga ekki að vera átök,“ segir Zaitseva við Sport24.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert