Setti pökkinn bara á markið og vonaði það besta

Kári Arnarsson með Íslandsbikarinn í leikslok.
Kári Arnarsson með Íslandsbikarinn í leikslok. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Kári Arnarsson er orðinn einn af máttarstólpunum í liði Skautafélags Reykjavíkur og í kvöld fékk hann að handleika og lyfta Íslandsmeistarabikarnum með félögum sínum. SR vann hreinan úrslitaleik gegn SA í kvöld, 4:3 og skoraði Kári sigurmarkið.

Áður en Kári var gripinn í viðtal þótti honum viðeigandi að segja blaðamanni að Birkir Árnason, hinn háaldraði liðsfélagi Kára, væri búinn að vinna Íslandsmeistaratitil með öllum félögunum í deildinni.

Sæll Kári. Þú ert mikill örlagavaldur, skorar sigurmarkið í þessum leik og líka í síðasta leik. Það verður að segjast að markið þið í síðasta leik var stórglæsilegt en markið í kvöld var ekki jafn glæsilegt. Mikilvægt engu að síður.

„Ég veit eiginlega ekki hvað gerðist eða hvernig pökkurinn endaði í netinu. Ég setti pökkinn bara á markið og vonaði það besta. Þetta virkaði alla vega og það eitt skiptir máli.“

Jonathan Otuoma, Sölvi Atlason og Níels Hafsteinsson fagna sigrinum.
Jonathan Otuoma, Sölvi Atlason og Níels Hafsteinsson fagna sigrinum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það hefur verið sæt stund fyrir þig að taka við bikarnum núna eftir langa bið.

„Jú ég er búinn að bíða eftir þessu í nokkur ár og hef tapað í úrslitum tvisvar, þrisvar áður. Þetta er bara rosaleg tilfinning, sem ekki er auðvelt að útskýra.“

Þú hefur verið í SR-liðinu lengi og manst vel árin þegar þið unnuð varla leik.

„Já, einmitt. Við vorum svo í úrslitum en steinlágum. Í fyrra unnum við einn leik í úrslitunum en kláruðum loks dæmið núna. Við viljum bara vinna meira á næsta tímabili og ég get eiginlega ekki beðið eftir því að það byrji. Nú finnst mér deildin hafa verið að styrkjast og liðin eru orðin jafnari en áður. Fyrir tveimur árum var SA að rústa flestum leikjum og hin liðin voru bara með.“

Leikmenn SR fagna meistaratitlinum í leikslok.
Leikmenn SR fagna meistaratitlinum í leikslok. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Nú er úrslitakeppnin í íshokkí engu lík. Liðin þeytast á milli landshluta og spila annan hvern dag, lítil hvíld og mikil keyrsla. Er þetta ekki bara eins og hjá atvinnumönnum?

„Jú, þetta og verkefni með landsliðinu kom nærri því að fá það á tilfinninguna að maður sé orðinn atvinnumaður. Þetta er ógeðslega skemmtilegt en myndi líklega ekki ganga í marga mánuði. Þegar þetta kemur svona í skorpum þá er þetta viðráðanlegt og mjög skemmtilegt. Algjörlega þess virði að taka tíma í þetta stúss.“

Skólinn og vinnan þurfa þá að sitja á hakanum.

„Já maður verður bara að taka á sig smá frí og  vera svo duglegur að vinna upp þegar hægist um hjá manni. Það er það eina í stöðunni.“

Þú minntist á landsliðið áðan. Er það ekki næsta törn í hokkíinu hjá ykkur?

„Það er verkefni hjá landsliðinu í lok apríl. Liðið fer til Spánar og keppir í 2. deild A. Ísland vann 2. deild B í fyrra og er nú í sterkari deild. Það bíður því erfitt verkefni en það er allt hægt og liðið stefnir bara ofar. Ég trúi á að liðið geti gert góða hluti á þessu móti“ sagði kotroskinn Kári að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert