Smáþjóðaleikarnir voru settir í kvöld

Fánaberar Íslands á setningarathöfninni, þau Anton Sveinn McKee og Jórunn …
Fánaberar Íslands á setningarathöfninni, þau Anton Sveinn McKee og Jórunn Harðardóttir. Ljósmynd/Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands

Setningarhátíð Smáþjóðaleikanna fór fram í kvöld og var hún stórglæsileg. Fánaberar fyrir Íslands hönd voru Anton Sveinn McKee, sundmaður, og Jórunn Harðardóttir, skotíþróttakona.

Smáþjóðaleikarnir fara þetta árið fram á Möltu og héldu forseti Ólympíunefndar Möltu og forsætisráðherra Möltu ávörp áður en kveikt var á Ólympíueldinum og leikarnir voru formlega settir.

Ólympíueldurinn var tendraður í Valetta höfuðborg Möltu.
Ólympíueldurinn var tendraður í Valetta höfuðborg Möltu. Ljósmynd/Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands

Alls eru níu lönd sem taka þátt í mótinu en auk Íslands eru þar heimamenn í Möltu, Andorra, Mónakó, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, San Marínó og Svartfjallaland. Um 1.000 keppendur taka þátt að þessu sinni.

Mbl.is mun fylgjast vel með gangi mála á Smáþjóðaleikjunum en Íslendingar taka þátt í átta íþróttagreinum af þeim tíu sem keppt verður í en þær greinar eru frjálsar íþróttir, sund, júdó, skotíþróttir, borðtennis, tennis, skvass og siglingar. Einnig er keppt í rugby og körfuknattleik en Ísland á ekki keppendur í þeim greinum að þessu sinni.

Hluti íslenska hópsins á setningarathöfninni.
Hluti íslenska hópsins á setningarathöfninni. Ljósmynd/Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert