Snæfríður setti fjórða Íslandsmetið á Möltu

Snæfríður Sól Jórunnardóttir með gullverðlaunapeninginn eftir að hafa borið sigur …
Snæfríður Sól Jórunnardóttir með gullverðlaunapeninginn eftir að hafa borið sigur úr býtum í 200 metra skriðsundi í dag. Ljósmynd/Sundsamband Íslands

Tvö Íslandsmet voru slegin á Smáþjóðaleikunum í sundi á Möltu í dag. Snæfríður Sól Jórunnardóttir er áfram í metaham og sló að þessu sinni eigið Íslandsmet í 200 metra skriðsundi.

Hún synti á tímanum 1:58,91 og sigraði í greininni. Gamla metið átti hún sjálf 1:59,75 sem hún setti í mars síðastliðnum.

Karlasveitin í 4x100m fjórsundi synti einnig á nýju Íslandsmeti, 3:46,66 mínútum.

Fyrra metið var 3:47,67 mínútur og var sett á Smáþjóðaleikunum í San Marínó í júní árið 2017.

Sveitin hafnaði í þriðja sæti og var skipuð þeim Guðmundi Leó Rafnssyni, Antoni Sveini McKee, Símoni Elíasi Statkevicius og Ými Sölvasyni.

Íslenska boðsundssveitin í 4x100m fjórsundi með bronsverðlaunapeninga sína í dag.
Íslenska boðsundssveitin í 4x100m fjórsundi með bronsverðlaunapeninga sína í dag. Ljósmynd/Sundsamband Íslands

Anton Sveinn keppti einnig í 100m bringusundi og stóð uppi sem sigurvegari á tímanum 1:01,35.

Kvennasveitin í 4x100m fjórsundi tryggði sér annað sætið á tímanum 4:16,12.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir bætti tíma sinn í 50m skriðsundi og tryggði sér bronsverðlaun.

Birgitta Ingólfsdóttir vann einnig bronsverðlaun þegar hún synti 100m bringusund á 1:11,74 og bætti tímann sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert