Ævintýralegt sigurhögg hjá Kuchar

Matt Kuchar með verðlaunagripinn á 18. brautinni á Hilton Head …
Matt Kuchar með verðlaunagripinn á 18. brautinni á Hilton Head eftir sigurinn í gærkvöld. AFP

Bandaríski kylfingurinn Matt Kuchar tryggði sér íu gærkvöld sigur á RBC Heritage meistaramótinu á Hilton Head eyju í Suður-Karólínuríki í gærkvöld með glæsilegu skoti beint úr sandgryfju á 18. holu vallarins.

Þar með skákaði hann Englendingnum Luke Donald, sem hafði verið í forystuhlutverkinu en mátti enn einu sinni sætta sig við að enda í öðru sæti á þessu móti í PGA-mótaröðinni bandarísku. Donald lék lokahringinn á 69 höggum og var með tveggja högga forystu þegar hann hófst.

Kuchar lék lokahringinn á 64 höggum og endaði á 11 höggum undir pari vallarins, 273 höggum, vann sinn sjöunda PGA-sigur og hreppti rúma eina milljón dollara í sigurlaun. Donald var á 274 höggum og síðan komu Bandaríkjamennirnir Ben Martin og John Huh á 275 höggum hvor.

„Ég kom mér í þessa stöðu eftir 17. holuna og það var magnað að sjá kúluna hverfa ofan í holuna. Að setja hana niður úr svona stöðu í sandgryfjunni er upplifun sem ég mun aldrei gleyma," sagði Kuchar í sjónvarpsviðtali í mótslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert