Donald ekki með í Ryder-bikarnum

Luke Donald þarf að gera sér að góðu að fylgjast …
Luke Donald þarf að gera sér að góðu að fylgjast með Ryder-bikarnum í þetta sinn. AFP

Segja má að ekkert hafi komið á óvart þegar fyrirliðinn Paul McGinley tilkynnti í dag hvaða þrjá kylfinga hann hefði valið til að fylla í lið Evrópu fyrir Ryder-bikarinn í golfi sem fram fer í Gleneagles í Skotlandi dagana 26.-28. september.

Níu kylfingar höfðu þegar tryggt sér sæti í liðinu með árangri sínum síðasta árið en það eru þeir Rory McIlroy, Martin Kaymer, Henrik Stenson, Victor Dubuisson, Jamie Donaldson, Sergio García, Justin Rose, Thomas Björn og Graeme McDowell.

Við þennan hóp bættust í dag þeir Ian Poulter, Lee Westwood og Stephen Gallacher. Gallacher er nýliði í Ryder-bikarnum en hann var aðeins einu höggi frá því að tryggja sér öruggt sæti í Evrópuliðinu með frammistöðu sinni á Opna ítalska meistaramótinu um helgina.

Á meðal þeirra sem ekki hlutu náð fyrir augum McGinley var Englendingurinn Luke Donald sem fjórum sinnum hefur verið í sigurliði Evrópu í Ryder-bikarnum.

Tom Watson, fyrirliði Bandaríkjanna, mun tilkynna um það seint í kvöld hvaða þrjá kylfinga hann hefur valið í sitt lið. Fyrirliðar hafa nú rétt til að velja sjálfir þrjá kylfinga, í stað tveggja áður, en hinir níu vinna sér sæti með árangri síðasta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert