Hrafn hefur alltaf verið ótrúlegur púttari

Hrafn Guðlaugsson kylfingur með viðurkenningu eftir mótið.
Hrafn Guðlaugsson kylfingur með viðurkenningu eftir mótið. Mynd/Faulknereagles.com

Hrafn Guðlaugsson kylfingur úr Golfklúbbi Setbergs og félagar hans í golfliði Faulkner háskólans í Bandaríkjunum unnu North Greenville boðsmótið sem fór fram dagana 23. og 24. mars síðastliðna. Hrafni var hrósað í hástert af þjálfara sínum sem segir hann ótrúlegan á flötinni en sjálfur segir Hrafn sigurinn einn þann stærsta á ferlinum.

Hrafn spilaði best allra á mótinu, og áttti frábæran annar hring, fór hann á 69 höggum en fór þann fyrri á 72 höggum, samanlagt á þremur höggum undir pari, einu höggi færra en næsti maður.

Þátttakendur voru 63 frá 11 háskólaliðum og leikið var á  Travelers Rest golfvellinum í Suður-Karólínu en stórkylfingurinn Gary Player hannaði völlinn.

„Þetta var einn stærsti sigurinn á ferlinum. Að vinna á þessum ótrúlega golfvelli gerði þetta enn sérstakara fyrir mig, ég mun án efa muna vel eftir þessu. Ég var spenntur að fá verðlaun en ennþá spenntari að vinna ásamt liðsfélögum mínum. Við höfum lagt hart að okkur og það er gott að sjá afrakstur erfiðsins,“ sagði Hrafn í viðtali.

„Hann hefur alltaf verið ótrúlegur púttari. Það er mjög skemmtilegt þegar að hann kemst í gírinn. Hann hefur líka þann einstaka hæfileika að geta framkvæmt hluti vel á háu stigi undir mikilli pressu. Það eru ekki allir sem geta gert það,“ sagði þjálfari Hrafns eftir keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert