Birgir fékk örn á par 4 holu

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. mbl.is/Styrmir Kári

Heythrop Park-völlurinn í Oxfordshire vafðist ekki mikið fyrir Birgi Leifi Hafþórssyni úr GKG þegar hann hóf þar leik í dag á móti á Áskorendamótaröð Evrópu.

Birgir lék virkilega vel og skilaði inn skori upp á 67 högg sem er fimm högg undir pari. Er hann í 19. sæti þegar þetta er skrifað og hafa flestir lokið leik.

Birgir hóf keppni á 10. teig byrjaði á skolla. Fékk hann tvo fugla og sex pör sem eftir var af seinni níu holunum. Fyrri níu holurnar (seinni níu hjá Birgi í dag) voru mun viðburðaríkari. Þar fékk Birgir einn örn, fjóra fugla, tvo skolla og tvö pör. Birgir var kominn fjögur högg undir parið en fékk þá skolla á 4. holu. Þá fékk hann hins vegar fugl og örninn á 6. holu sem er par 4 hola, 327 metrar að lengd. Þá tók við skolli á 7. en aftur fugl á 8. holu og loks par á 9. og síðustu holu dagsins. 

Mjög gott skor var á mótinu í dag. Þjóðverjinn Thomas Detry er langefstur eftir að hafa hitt á algeran draumahring en Detry lék á 60 höggum sem er tólf undir pari. Fékk hann tólf fugla en engan örn sem er athyglisvert þegar um jafn rosalegt skor er að ræða. Næsti maður er á átta undir pari. Nokkuð margir eru á 7, 6 og 5 höggum undir pari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert