Kóngurinn Palmer fallinn frá

Arnold Palmer á góðri stundu með Tiger Woods árið 2013.
Arnold Palmer á góðri stundu með Tiger Woods árið 2013. AFP

Golfgoðsögnin Arnold Palmer lést í gær, 87 ára að aldri. Bandaríkjamaðurinn vann sjö risamót á ferlinum sem spannaði áratugi. Fáir kylfingar eru sagðir hafa gert eins mikið til að bera út hróður golfíþróttarinnar og aflað henni nýrra fylgjenda í gegnum tíðina og Palmer gerði innan sem utan vallar.

Tímaritið Golfweek greindi fyrst frá andláti Palmer á vefsíðu sinni og vísaði til heimildamanna sem standa fjölskyldu Palmer nærri.

Palmer gekk undir viðurnefninu „Kóngurinn“ en hann átti sér fjölda stuðningsmanna sem kölluðu sig „Herinn hans Arnie“ (Arnie's Army). Með heillandi framkomu og óttalausum leik laðaði Palmer fjölda fólks að golfi sem hafði ekki haft áhuga á íþróttinni áður. Honum er að miklu leyti þakkað fyrir að hafa fært golfið úr fínum sveitaklúbbum og gert það að almenningsíþrótt.

Alls vann Palmer Masters-mótið fjórum sinnu, Opna mótið á Bretlandi tvisvar sinnum og Opna bandaríska mótið einu sinni. Aðeins sex kylfingar í sögunni hafa sigrað á fleiri risamótum. Þá sigraði hann á 62 mótum á PGA-mótaröðinni frá árinu 1955 til 1973 og er í fimmta sæti yfir sigursælustu kylfinga sögunnar þar.

Palmer var á meðal fyrstu kylfinganna sem voru teknir inn í Frægðarhöll golfsins árið 1974. Hann lagði hins vegar ekki kylfurnar endanlega á hilluna fyrr en árið 2006.

Undanfarin ár hafði Palmer slegið opnunarhögg Masters-mótsins með hinum tveimur stjörnum hans tíma, Jack Nicklaus og Gary Player. Palmer sat hins vegar hjá í vor og bar við heilsuleysi. Síðasta golfhöggið sem hann sló var heiðurshögg til að setja Opna mótið á Bretlandi í fyrra. Hans verður minnst sem eins ástsælasta kylfings sögunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert