„Mér líður vel“

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/Tristan Jones,

„Mér leið bara vel eins og hina dagana. Ég reyni að hugsa sem minnst um golf eftir hringina og ég vinn með hugarþjálfunarverkefni á kvöldin,“ sagði Ólafía við golf.is þegar hún var innt eftir því hvernig hún hefði undirbúið sig fyrir fjórða hringinn á lokaúrtökumótinu fyrir LPGA-atvinnumótaröðina í Bandaríkjunum.

Ólafía lék á 68 höggum eða 4 höggum undir parinu og er hún á 13 höggum undir parinu fyrir fimmta hringinn sem er jafnframt lokahringurinn. Ólafía þarf að enda í hópi 20 efstu eftir fimmta keppnisdaginn til þess að öðlast keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni. Eftir daginn í dag er hún með níu högga forskot á þær sem eru í kringum 20. sætið.

„Mér líður vel og þessi hringur var mjög svipaður og hinir, var með 27 pútt. Planið fyrir lokahringinn er að vera andlega sterk og þolinmóð,“ sagði Ólafía við golf.is.

Hún verður í síðasta ráshópnum á morgun og leggur af stað klukkan 14.31 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert