Ólafía í dauðafæri eftir 6 fugla í dag - önnur í Daytona

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, hélt heldur betur sínu striki í dag og lék fjórða hringinn af fimm á lokaúrtökumótinu fyrir bandarísku LPGA-mótaröðina á Daytona Beach-svæðinu í Flórída á fjórum höggum undir pari vallarins, eða 68 höggum.

Ólafía fékk sex fugla á holunum átján en tvo skolla. Hún lék hinar tíu holurnar á pari.

Það þýðir að Ólafía hefur nú leikið á samtals 13 höggum undir pari á þessum fjórum hringjum og fyrir lokahringinn á morgun er hún í dauðafæri til að tryggja sér keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni, þeirri sterkustu í heimi, á næsta ári. Skorkort hennar er sannfærandi en eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 74 höggum hefur hún spilað hina þrjá á 66, 67 og 68 höggum.

Ólafía er í öðru sæti eftir fjóra hringi. Jaye Marie Green frá Bandaríkjunum er sú eina sem er á undan Ólafíu, á 15 höggum undir pari, en Sadena Parks frá Bandaríkjunum er þriðja á 12 höggum undir pari og Nasa Hateoka frá Japan er fjórða á 11 höggum undir pari.

Fimm efstu:

273 Jaye Marie Green, Bandaríkjunum, 68-68-67-70
275 Ólafía Þ. Kristinsdóttir, Íslandi, 74-66-67-68
276 Sadena Parks, Bandaríkjunum, 69-72-67-68
277 Nasa Hataoka, Japan, 68-65-69-75
278 Angel Yin, Bandaríkjunum, 74-67-69-68

Allt snýst þetta um að vera í hópi 20 efstu að keppni lokinni á morgun. Það þarf ansi margt að fara úrskeiðis frá Ólafíu til að hún nái ekki þessu stóra takmarki. Þær sem eru í 19.-22. sæti eftir daginn í dag eru á 4 höggum undir pari og Ólafía er því með níu högga forskot á þær. 

Þær sem enda í 21.-40. sæti fá takmarkaðan keppnisrétt á mótaröðinni og þær sem eru í 37.-43. sæti fyrir lokahringinn eru á einu höggi undir pari, tólf höggum á eftir Ólafíu.

Hér má sjá stöðuna sem uppfærist jafnóðum.

Twitter-síða GSÍ er með stöðugar fréttir frá Flórída.

Fylgst var með gengi Ólafíu frá holu til holu í beinni textalýsingu hér á mbl.is. Endurhlaðið fréttina til að sjá nýjustu færslurnar:

0. Ólafía er að byrja og samkvæmt Twitter hjá GSÍ er 23 stiga hiti á Daytona Beach í dag. Hún leikur á Jones-vellinum en hann fór hún á 66 höggum á öðrum degi. Leikið er til skiptis á Jones-velli og Hills-velli en lokahringinn á morgun leika allir keppendur á Hills-vellinum.

1. Ólafía byrjar þar sem frá var horfið. Fugl á fyrstu holu og hún styrkir enn stöðuna. Er á 10 undir pari. Flott byrjun.

2. Ólafía leikur aðra holuna á pari, fjórum höggum, og er áfram með 10 högg undir pari og í þriðja sætinu.

3. Ólafía leikur þriðju holuna líka á pari, þremur höggum. Sama staða, 10 högg undir pari og þriðja sæti.

4. Sama öryggið hjá Ólafíu sem vippar inná flötina og púttar. Fjögur högg, par, og staðan er sú sama. 10 högg undir pari og þriðja sæti. Hún hefur saxað á forskot tveggja efstu en Jaye Marie Green og Nasa Hataoka eru báðar á 13 undir pari sem stendur.

5. Ólafía náði að leika fimmtu holuna á pari, fimm höggum, eftir erfiða byrjun. Ekki gott upphafshögg en boltinn fannst og hún komst inná flöt á þremur höggum. Vel gert. Áfram 10 högg undir pari.

6. Fugl - Ólafía lék sjöttu holuna á 2 höggum, einu undir pari! Enn styrkist staðan. Nú er hún á 11 höggum undir pari. Glæsilegt! Nú er hún bara tveimur höggum frá öðru sætinu.

7. Fugl! Sá þriðji í dag. Ólafía er á siglingu. Hún leikur þessa par 4 holu á þremur höggum. Nú er hún á 12 höggum undir pari. Sækir enn að tveimur efstu.

8. Ólafía lék áttundu holuna á pari, fjórum höggum. Áfram á 12 höggum undir pari og einu högg á eftir Jaye Marie Green og Nasa Hataoka  sem eru í tveimur efstu sætunum. Hún er nú tveimur höggum á undan þeim sem eru í fjórða og  fimmta sæti.

9. Ólafía lék níundu holuna á pari, 5 höggum, og lauk með því fyrri hringnum á 33 höggum, sem er þremur undir pari vallarins. Hún er áfram á 12 höggum undir pari og nú hafa þau tíðindi gerst að Ólafía er komin í 2. sætið!

10. Áfram leikur Ólafía af öryggi og spilar 10. holuna á pari, 4 höggum. Áfram í 2. sæti á 12 höggum undir pari, einu höggi á eftir Nasa Hatoka frá Japan.

11. Ah, þar kom fyrsti skolli dagsins. Ólafía leikur par 4 holuna á fimm höggum. Þá er hún á 11 höggum undir pari og sígur niður í 4.-5. sætið.

12. Ólafía er á pari á nýjan leik, lék 12. holuna á fjórum höggum. Hún er áfram á 11 höggum undir pari og er áfram í 4.-5. sæti.

13. Ólafía er áfram á parinu, lék 13. holuna á fimm höggum og er áfram á 11 höggum undir pari. Núna er hún í 5. sætinu en aðeins tveimur höggum á eftir tveimur efstu keppendum og sjö höggum fyrir ofan hið dýrmæta 20. sæti.

14. FUGL! Taugarnar trufla Ólafíu ekkert, hún leikur fjórtándu holuna á tveimur höggum, einu undir pari, og er aftur á 12 höggum undir pari! Þar með stekkur hún aftur upp í 2. sætið, einu höggi á eftir Jaye Marie Green sem er á 13 undir pari.

15. Ólafía leikur fimmtándu holuna á pari, fjórum höggum, og er áfram á 12 höggum undir pari. Hún er í 3. sæti sem stendur.

16. FUGL! Sá fimmti í dag steinliggur hjá Ólafíu þegar hún spilar sextándu holuna á einu undir pari, þremur höggum! Hún er Á TOPPNUM! ásamt tveimur öðrum á 13 höggum undir pari. Magnað!!

17. En þar kom annar skolli dagsins, Ólafía lék par 3 holuna á fjórum höggum eftir tvípútt. Hún er þá á 12 höggum undir pari fyrir síðustu holuna í dag. Hún er áfram í 2. sæti, tveimur höggum á eftir Jaye Marie Green og höggi á undan tveimur næstu.

18. FUGL! Ólafía lýkur keppni í dag á glæsilegan hátt, með sínum sjötta fugli á þessum hring. Stórkostleg frammistaða! Hún lék semsagt á 4 undir pari í dag og er samtals á 13 undir pari vallarins. Er ein í 2. sæti sem stendur!

Ólafía lék fyrsta hringinn á miðvikudaginn á 74 höggum en spilaði síðan frábært golf á fimmtudag og föstudag þar sem hún lék á 66 og 67 höggum og var þar með á 9 höggum undir pari vallarins þegar keppni hófst í dag kl. 15.12 að íslenskum tíma.

Eftir þrjá daga var Nasa Hataoka frá Japan efst á 202 höggum, Jaye Marie Green frá Bandaríkjunum kom næst á 203 höggum og síðan Ólafía á 207 höggum. Sjötíu efstu eftir daginn í dag fá að keppa á fimmta og síðasta hringnum á morgun en þær sem eru í kringum sjötugasta sætið eru ellefu höggum á eftir Ólafíu í byrjun fjórða hrings.

Lokatakmarkið er síðan að vera meðal 20 efstu í mótslok á morgun því það veitir keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni, sterkustu mótaröð heims. Þær sem eru í kringum tuttugasta sætið eftir þrjá daga eru sex höggum á eftir Ólafíu í byrjun fjórða hrings.

Ólafía freistar þess að ná fugli á þriðju holu í dag:

Færsla frá GSÍ á Twitter rétt áður en Ólafía hóf keppni í dag:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert