Hvað bíður Ólafíu á árinu 2017?

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/ladieseuropeantour.com

Árið sem bíður handan við hornið gæti orðið ævintýralegt fyrir kylfinginn Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur. Eins og flestir íþróttaáhugamenn vita tókst henni að þræða nálaraugað og ná einu af þeim tuttugu sætum sem í boði voru á bandarísku LPGA-mótaröðinni á næsta ári en mörg hundruð kylfingar lögðu upp í þá vegferð. Ólafía er þá komin inn á mótaröð þeirra bestu í íþróttinni í heiminum. En hvað felst nákvæmlega í því að öðlast keppnisrétt á LPGA?

Keppnisrétturinn er til eins árs í senn þegar kylfingar vinna sig inn í gegnum úrtökumótin. Ólafía þarf að ná árangri á mótaröðinni til þess að endurnýja keppnisréttinn árið 2018. Þar er horft til peningalistans svokallaða, þ.e.a.s. hverjir hafa þénað mest á mótum mótaraðinnar eða með öðrum orðum, hverjar eru með bestan samanlagðan árangur á árinu. 125 efstu kylfingarnir eftir tímabilið halda keppnisrétti sínum árið á eftir. Þær sem eru á mótaröðinni, en ná ekki að vera í þessum hópi, fara þá beint á þriðja og lokastig úrtökumótanna. Þar er um að ræða mótið sem Ólafía var að ljúka leik á með svo frábærum árangri.

Við þetta má bæta að sigur í stöku móti á mótaröðinni breytir gífurlega miklu. Þá fær viðkomandi kylfingur keppnisrétt á mótaröðinni í þrjú ár og þarf ekki að hugsa meira um það í bili. Auk þess gefur sigur í móti á LPGA það góða stöðu á peningalistanum og heimslistanum að viðkomandi kylfingur getur þá tekið þátt í risamótunum sem eru fimm talsins hjá konunum.

Ólafía í hólfi 12

Færri komast að en vilja eins og gefur að skilja í mótum á LPGA. Í hverju slíku golfmóti er hámarksfjöldi kylfinga en hann er gjarnan 144 kylfingar í mótum hjá atvinnumönnum. Þegar fundið er út hverjir eiga keppnisrétt eru kylfingar settir í nokkur hólf. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að kylfingur eigi keppnisrétt í móti. Góð staða á heimslista, góð staða á peningalista mótaraðarinnar, fyrrverandi sigurvegari á mótinu auk þess sem mótshaldarar og styrktaraðilar geta boðið nokkrum kylfingum sem talið er að muni trekkja að. Ólafía og aðrir nýliðar á mótaröðinni eru settir í hólf númer 12.

Þótt markmiðið hjá öllum kylfingum í úrtökumótunum sé að ná einu þeirra sæta sem gefa þátttökurétt þá hjálpar það Ólafíu að hafa náð 2. sæti um helgina. Hún er fremst í röðinni í flokki 12. Þegar nýliðarnir lenda á biðlista inn í vinsæl mót þá gæti sú staða hjálpað til.

Fréttaskýringu um LPGA-mótaröðina í heild sinni er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert