Dauðsfall á mótaröð Ólafíu

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Kylfuberi lét lífið á golfmóti í Dubai í morgun en mótið er hluti af Evrópumótaröð kvenna sem Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur leikið á á þessu ári. 

Kylfuberinn hneig niður á 13. braut á Dubai Ladies Masters og frekari leik var aflýst í dag. Hugað var að honum á staðnum en hann lést á sjúkrahúsi nokkru síðar. 

Ivan Khodabakhsh, framkvæmdastjóri Evrópumótaraðar kvenna, sendi frá sér stutta yfirlýsingu þegar örlög kylfuberans lágu fyrir: „Við erum í miklu áfalli og sorg vegna þessa atburðar. Við höfum því aflýst leik í dag í virðingarskyni við hinn látna.“

Fyrsta hring lýkur á morgun en mótið verður 54 holur í stað 72 eins og fyrirhugað var. 

Ólafía er ekki á meðal keppenda í mótinu í Dubai enda nýbúin að ljúka leik á úrtökumótinu fyrir bandarísku mótaröðina á Flórída eins og frægt varð. Hún hefur hins vegar leikið í nokkrum mótum á Evrópumótaröðinni á þessu ári og tók þátt í nokkrum mótum í Asíu í október og nóvember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert