Ólafía fékk eina milljón í verðlaunafé

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/GSÍ

Íslands­meist­ar­inn í golfi, Ólafía Þór­unn Krist­ins­dótt­ir, fékk eina milljón, 9.005 dollara, í sinn hlut eft­ir að hún hafnaði í 30. - 39. sæti á ISPS Handa-mótinu sem lauk í Ástralíu undir morgun.

Ólafía hlaut 324 þúsund íslenskar krónur fyrir árangur sinn á fyrsta móti sínu í LPGA-mótaröðinni, sem fór fram á Bahamas í lok janúar. Hún er því samtals búin að vinna sér inn rétt rúmar 1,3 milljónir íslenskra króna í verðlaunafé.

Verðlauna­fé móts­ins var alls 1,3 milljónir dollara, um 143 milljónir íslenskra króna, og deildu keppendurnir 75, sem komust í gegnum niðurskurðinn eftir fyrstu tvo keppnisdagana, verðlaunafénu.

Sigurvegarinn Ha Na Jang frá Suður-Kóreu, fékk 21,5 milljónir króna í sinn hlut.

Ólafía er í 51. sæti á peningalistanum að loknum tveimur mótum í LPGA-mótaröðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert