Ótrúlegt öryggi Johnsons

Dustin Johnson greinir púttlínuna á Riviera-vellinum um helgina þar sem …
Dustin Johnson greinir púttlínuna á Riviera-vellinum um helgina þar sem Morgunblaðið var á staðnum. AFP

Dustin Johnson náði toppsætinu á heimsstyrkleikalistanum fyrir atvinnumenn í golfi með sigri á Genesis-mótinu hér á Riviera-golfvellinum í Los Angeles á sunnudag. Þetta var fyrsti sigur hans á þessu móti, sem er eitt af byrjunarmótunum fyrir PGA-mótaröðina hér vestra.

Allir bestu kylfingar heimsins spiluðu í þessu móti og því mikill akkur fyrir þá að krækja sér í sigur á svo sterku móti í upphafi keppnistímabilsins. Margir voru því kallaðir, en það var Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson sem tók völdin á mótinu annan daginn og jók smám saman forystu sína þar til öll spenna fór úr toppbaráttunni síðasta daginn. Johnson náði mest níu högga forystu síðasta daginn og átti ekki í erfiðleikum með að vinna með fimm höggum, 17 undir pari. Frammistaða á heimsmælikvarða og með sigrinum fór hann uppfyrir Ástralann Jason Day í toppsætinu á heimsstyrkleikalistanum sem Day hafði haldið í tæpt ár.

Ótrúleg hæfni þeirra bestu

Við hér á Morgunblaðinu mættum á Genesis-mótið á miðvikudag til að fylgjast með svokallaðri pro-am keppni, en á sumum mótum er miðvikudagurinn notaður í keppni atvinnuleikmanna og áhugafólks – í flestum tilfellum er um frægt fólk eða fólk úr viðskiptaheiminum að ræða.

Þetta var fyrsta heimsókn mín á PGA-mót, þannig að margt vakti athygli manns.

Völlurinn er um það bil tvo kílómetra frá Santa Monica-strönd og hafði starfsfólk vallarins komið honum í fullkomið ástand. Ég hafði tækifæri til að ganga um flöt upphitunarsvæðisins og var það hreint ótrúlega slétt.

Mér varð hugsað til þess hvað þessir atvinnumenn þurfa að vera ótrúlega næmir í skotum sínum á þessum flötum. Ekki laust við að maður hafi enn meiri aðdáun á hæfni þeirra eftir að hafa sett hendur á grasið á flötinni. Þetta er sýnilega ólíkt því sem íslenskir kylfingar eru vanir af flötum golfvalla á klakanum.

Sjá grein Gunnars Valgeirssonar í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert