Ólafía einu yfir pari eftir tvo skolla í lokin

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur lokið fyrsta hring á fjórða LPGA-móti …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur lokið fyrsta hring á fjórða LPGA-móti sínu. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var nú rétt í þessu að ljúka fyrsta hringnum á KIA Classic-mótinu í golfi, fjórða mótinu í LPGA-mótaröðinni sem fram fer í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum. Ólafía er á einu höggi yfir pari eftir fyrsta hring á mótinu og er jöfn í 65.-81. sæti.

Ólafía byrjaði hringinn á skolla, en var fljót að hrista það af sér og náði í fimm pör í röð. Hún fékk svo fyrsta fuglinn á 7. brautinni þegar hún lagði annað höggið upp að stöng og púttaði fyrir fuglinum. Hún kláraði svo fyrri níu holurnar á tveimur pörum, og var því á pari samtals fyrir seinni helminginn.

Ólafía byrjaði seinni níu holurnar jafnörugglega og hún lauk þeim fyrri og nældi í fjögur pör í röð. Á 14. braut sem er par 3 kom svo annar fugl og Ólafía því samtals á einu höggi undir pari. Hún fékk hins vegar skolla á síðustu tveimur holunum og er því samtals á einu höggi yfir pari.

Efstu kylfingarnir eru á sex höggum undir pari, en annar hringurinn er leikinn á morgun og að honum loknum er skorið niður fyrir síðustu tvo hringina.

18. Ólafía klárar þennan fyrsta hring á tveimur skollum og er því á einu höggi yfir pari samanlagt. Þrír skollar og tveir fuglar á þessum hring.

17. Lengsta hola vallarins er þessi par 5 braut og þar fær Ólafía skolla, sinn annan á hringnum eftir að hafa byrjað á slíkum á fyrstu holu. Síðasta brautin er par 4 og fyrir hana er Ólafía á sléttu pari.

16. Áfram heldur örugg spilamennska Ólafíu og hún nælir hér í þrettánda parið á 16. braut, sem er par 4. Aðeins tvær holur eru nú eftir.

15. Ólafía fylgir fuglinum eftir með tólfta parinu á þessari par 4 braut. Hún er að spila öruggt, á tveimur höggum inn á flöt og tvípútt fyrir parinu. Þrjár holur eftir og sem stendur er hún jöfn fleiri kylfingum í 36.-51. sæti.

14. Annar fuglinn kominn! Fjórtánda brautin er stutt par 14, og Ólafía krækir í fugl. Hún er nú á einu höggi undir pari og fjórar holur eftir af fyrsta hringnum.

13. Ekkert nýtt undir sólinni á þrettándu braut, Ólafía heldur sinni stöðugu spilamennsku áfram og púttar fyrir pari á þessari par 4 holu.

12. Og enn er það par hjá Ólafíu, í þetta sinn á tólftu braut. Tíunda parið komið í hús og hún er jöfn fleiri kylfingum í 50. sæti.

11. Ólafía nær í níunda parið á elleftu braut, sem er par 3. Þrátt fyrir að hitta ekki flötina í upphafshögginu leggur hún upp að stöng í því næsta og púttar fyrir parinu.

10. Ólafía er komin af stað á seinni níu og fyrsta brautin er par 5. Eins og svo oft áður þá er hún öryggið uppmálað á flötinni og tvípúttar fyrir parinu. Hennar áttunda par á fyrsta hringnum.

9. Ólafía parar níundu holuna, sem er stutt par 4 braut og aftur tvípúttar hún fyrir parinu. Sannfærandi í stutta spilinu. Ólafía er nú jöfn í 52. sæti fyrir seinni níu holurnar.

8. Sjötta parið kemur á áttundu brautinni, sem er par 5. Inn á flöt í þremur höggum og tvö pútt fyrir parinu. Allt eftir bókinni.

7. Fyrsti fuglinn kominn! Sjöunda brautin er par 4, Ólafía leggur upp að pinna og púttar fyrir fuglinum. Komin aftur á parið eftir sjö holur.

6. Fimmta parið í röð, virkilega gaman að sjá að skollinn sló Ólafíu ekki út af laginu. Sjötta holan var par 3, og þar var teighöggið inn á flöt og tvö pútt fyrir pari.

5. Fimmta holan er par 5 og Ólafía parar hana, fjórða parið í röð. Hún fór inn á í þremur höggum og tvípúttaði fyrir parinu.

4. Þriðja parið í röð eftir skollann í byrjun. Fjórða brautin er einnig par 4 og Ólafía leikur hana á pari. Hún er nú jöfn fleiri kylfingum í 75.-98. sæti, en það er lítið að marka það svona snemma leiks.

3. Ólafía parar þriðju holuna, sem er par 3 braut. Upphafshöggið var inni á flöt og svo voru það tvö pútt fyrir parinu.

2. Ólafía kemur sterk til baka og parar næstu holu, sem einnig er par 4 braut. Næst tekur við par 3 braut.

1. Fyrsta brautin er par 4 og Ólafía spilar hana á fimm höggum. Byrjar á skolla.

20.50 Þá er Ólafía komin á teig á fyrstu braut og hringurinn er að hefjast, en aðeins þrír ráshópar eru á eftir henni. Við fylgjumst með allt til enda.

Fyrir hringinn: Verðlauna­féð sem í boði er á KIA Classic er hærra en á þeim þrem­ur mót­um sem Ólafía hef­ur spilað á til þessa á tíma­bil­inu. Alls eru 1,8 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala í boði, jafn­v­irði um 200 millj­óna króna, og fær sig­ur­veg­ar­inn um 30 millj­ón­ir króna í sinn hlut. 

Fyrir hringinn: Um er að ræða síðasta mótið fyrir fyrsta risamót tímabilsins og því leggja bestu kylfingar heims áherslu á að vera með. Til að mynda eru 15 efstu kylfingar heimslistans með í ár.

Fyrir hringinn: Ólafía er að spila á sínu fjórða móti í LPGA-mótaröðinni, þeirri sterkustu í heimi. Hún komst í gegnum niðurskurðinn á fyrstu tveimur, en um síðustu helgi missti hún af niðurskurðinum þegar hún keppti í Phoenix.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert