Ólafía ekki í gegnum niðurskurðinn

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir verður í eldlínunni í Texas í dag.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir verður í eldlínunni í Texas í dag.

Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er fallin úr leik á Volunteers of America-mótinu sem er hluti af LPGA-mótaröðinni í Texas. Ólafía lék hringinn í dag á sjö höggum yfir pari og er samtals á átta höggum yfir pari eftir þrjá hringi.

Ólafía er eins og staðan er núna í 62. - 68. sæti en 50 efstu halda áfram keppni og leika lokahringinn á morgun. Talsverður fjöldi kylfinga hefur ekki lokið leik en ólíklegt er að Ólafía endi á meðal 50 efstu.

Uppfært klukkan 20.16:

Allir kylfingar hafa nú lokið þriðja hring. Ólafía endaði mótið í 59. - 68. sæti og komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Fylgst var með gangi mála hjá Ólafíu í dag í beinni textalýsingu:

18. Ólafía Þórunn lék lokaholuna á pari og er því samtals á sjö höggum yfir í dag og átta allt í allt að loknum þremur keppnisdögum. Ekki hafa allir keppendur lokið þriðja hring en mestar líkur eru á því að Ólafía hafi lokið leik á þessu móti, hún er í 62. - 68. sæti eins og staðan er en 50 efstu leika lokahringinn á morgun.

17. Nei, nei, nei. Ólafía leikur næstsíðustu holuna á skolla, einu höggi yfir pari. Hún er því núna samtals á átta höggum yfir pari, nú þegar ein hola er óleikin á þriðja hring mótsins. Hún er í 61. - 74. sæti og ólíkt að hún komist áfram en 50 efstu leika lokahringinn á morgun.

16. Ólafía nær sér eftir slæma 15. holu og leikur þá 16. á pari. Hún er þá áfram samtals sex höggum yfir pari og er í 50. - 61. sæti þegar hún á tvær holur óleiknar.

15. Úff þessi hola fór alls ekki nógu vel. Ólafía lék hana á þremur yfir pari, þreföldum skölla, og er nú á fimm höggum yfir pari í dag og sex alls. Hún er dottin niður í 52. - 68. sæti og þarf aðeins að spýta í lófana á lokaholunum til að komast í gegnum niðurskurðinn.

14. Þriðja holan í röð sem Ólafía leikur á pari. Hún er í 31. - 42. sæti eins og staðan er núna en keppnin er mjög jöfn. Nokkrir fuglar í lokin væru vel þegnir.

13. Ólafía er aftur kominn í pargírinn, ef svo má segja. Hún leikur þrettándu holuna á pari, líkt og þá tólftu, og er í 38. - 45. sæti.

12. Ólafía lék tólftu holuna á pari og heldur sig því á svipuðum slóðum og hún hefur verið í dag.

11. Þessi hola fór ekki vel. Ólafía lék á skramba, tveimur yfir pari í dag og þremur yfir pari, sé litið til allra keppnisdaganna. Hún er eins og staðan er núna í 39. - 45. sæti.

10. Þar kom að því, fyrsti fugl dagsins kominn! Ólafía er því á pari, sé litið til allra þriggja keppnisdaganna en á einu höggi yfir í dag. Hún flýgur upp listann og er núna í 29. - 39. sæti.

9. Ólafía leikur níundu holuna á pari og er því samtals á einu höggi yfir pari þegar níu holur eru óleiknar í dag. Hún er í 41. - 43. sæti eins og staðan er núna.

8. Enn leikur Ólafía á pari og staða hennar batnar örlítið. Hún er á einu höggi yfir samtals og í 33. - 41. sæti eins og staðan er akkúrat núna.

7. Ólafía leikur sjöundu holuna á pari en hún hefur verið á pari á fimm holum af sjö. Hún er því enn á einu höggi yfir pari samtals og er í 42. sæti.

6. Ólafía Þórunn finnur aftur fjölina sína og leikur sjöttu holu vallarins á pari vallarins. Ólafía Þórunn er því samtals á einu höggi yfir pari vallarins eftir sex holur á þriðja hringnum. Ólafía Þórunn er nú í 45. - 50. sæti mótsins og ljóst að hörð barátta er framundan hjá henni um að komast í gegnum seinni niðurskurðinn. Það eru 50 efstu keppendurnir sem öðlast þátttökurétt á lokahring mótsins.

5. Ólafía Þórunn fær skolla á fimmtu holu vallarins og er því samtals á einu höggi yfir pari eftir fimm holur á þriðja hringnum. Ólafía Þórunn fellur niður í 44. - 52. sæti mótsins og ljóst að hörð barátta er framundan hjá henni um að komast í gegnum seinni niðurskurðinn. Það eru 50 efstu keppendurnir sem öðlast þátttökurétt á lokahring mótsins.

4. Ólafía Þórunn heldur áfram að leika á pari vallarins, en hún leikur þriðja holuna í röð á pari vallarins á fjórða holunni á þriðja hringnum. Ólafía Þórunn er nú kominn upp í 37. - 44. sæti mótsins, en 50 efstu keppendurnir komast í gegnum seinni niðurskurðinn og leika lokahring mótsins.

3. Ólafía Þórunn leikur aðra holuna í röð á pari vallarins og er því áfram samtals á pari vallarins eftir þrjár holur á þriðja hringnum. Ólafía Þórunn er sömuleiðis áfram í 39. - 47. sæti mótsins, en 50 efstu keppendurnir komast í gegnum seinni niðurskurðinn og leika lokahring mótsins.

2. Ólafía Þórunn er að finna taktinn og leikur aðra holuna á pari vallarins og er því samtals á pari vallarins eftir tvær holur á þriðja hringnum. Ólafía Þórunn er í 39. - 47. sæti mótsins eins og staðan er núna, en 50 efstu keppendurnir komast í gegnum seinni niðurskurðinn og leika lokahring mótsins.

1. Ólafía Þórunn byrjar ekki nógu vel í dag, en hún fær skolla á fyrstu holunni á þriðja hringnum. Ólafía Þórunn er því samtals á pari vallarins eins og sakir standa.

0. Ólafía Þórunn fór illa af stað í mótinu, en hún lék fyrsta hringinn á þremur höggum yfir pari vallarins. Ólafía Þórunn sýndi hins vegar hvað í henni býr á öðrum hring vallarins, en hún lék annan hringinn í gær á fjórum höggum undir pari vallarins og komst í gegnum niðurskurð mótins.

Ólafía Þórunn hefur því leikið hringina tvo á samtals einu höggi undir pari valllarins og er er í 34.-43. sæti af þeim 80 keppendum sem komust áfram. Ólafía Þórunn þarf hinsvegar að spila vel til að fá að halda áfram á lokahringnum á morgun. Á þessu móti eru nefnilega tveir niðurskurðir og bara 50 fyrstu í dag komast á lokahringinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert