Íslandsmótið fer vel af stað

Horft yfir níundu brautina á Hvaleyrarvelli í dag.
Horft yfir níundu brautina á Hvaleyrarvelli í dag. mbl.is/ofeigur

Íslandsmótið í golfi hófst í morgun á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði. Golfklúbburinn Keilir stóð fyrir breytingum á þremur holum á vellinum, svo kylfingar leika nú á nýjum 13., 14. og 15. brautum. Viðbótin er skemmtileg og gefur vellinum mikinn karakter, en keppendur mótsins eru ánægðir með hana.

Aðstæður í Hafnarfirði eru mjög góðar. Í morgun lét sólin sjá sig og á sama tíma var stafalogn. Um hádegið fór að kólna og þoka lagðist yfir völlinn, en völlurinn er í mjög góðu ástandi. Um 100 sjálfboðaliðar starfa í kringum mótið og er til að mynda skor keppenda uppfærð á golf.is eftir hverja holu. Umgjörðin er frábær og er um að gera að mæta í Hafnarfjörðinn og sjá okkar bestu kylfinga leika.

141 keppandi var skráður til leiks, en kylfingar fara vel af stað. Besti kylfingurinn í karlaflokki leikur á fimm höggum undir pari eftir 10 holur, en ekki hafa allir kylfingar hafið leik. 

Berglind Björnsdóttir (GR), Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK) og Valdís Þóra Jónsdóttir (GL) leika allar á einu höggi undir pari, en þær eru einungis búnar með fjórar holur.

Hægt er að fylgjast með stöðunni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert