Ólafía skipti um gír í teighöggunum

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var sátt með spilamennsku sína á Marathon Classic-mótinu á LPGA-mótaröðinni en hún spilaði síðasta hringinn í dag á fjórum höggum undir pari vallarins.

„Ég er búin að vera að spila vel. Ég notaði driver-inn vel fyrsta daginn en svo datt hann svolítið út og ég hef verið að slá með 3-tré af teig síðan. Ég hef verið svolítið hársbreidd frá því í púttunum en í dag þá féllu þau,“ sagði Ólafía eftir að hafa lokið fjórða hringnum. Hún kom í hús jöfn fleiri kylfingum í 42. sæti, en enn eiga margir eftir að ljúka leik og lokastaða hennar því ekki ljós.

En hvað finnst henni um spilamennskuna fyrir komandi mót?

„Stutta spilið er mjög gott og ég þarf bara að fínpússa löngu höggin aðeins, með driver og 3-tré, og þá er þetta bara komið,“ sagði Ólafía, sem minntist einnig á góðgerðarmót í golfi sem hún mun halda á næstunni.

„Ég er að halda góðgerðarmót með KPMG 8. ágúst, sem verður geggjað og ég vona að sem flestir komi,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert