„Kemst í kjólinn fyrir jólin“

Valdís Þóra á mótinu í Kína um helgina.
Valdís Þóra á mótinu í Kína um helgina. Ljósmynd/ladieseuropeantour.com

„Ég er bara virkilega ánægð með þennan árangur minn á mótinu og það var ljúft að ná að tryggja sig inn á mótaröðina fyrir næsta tímabil og geta farið aðeins rólegri á síðasta mótið sem fram fer í Dubai,“ sagði kylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir í samtali við mbl.is en hún náði þeim frábæra árangri að enda í þriðja sæti á Sanya-mótinu á LET-Evrópumótaröðinni sem fram fór á Hain­an-eyju í Suður-Kína­hafi.

Með frammistöðu sinni á mótinu áði Valdís Þóra að tryggja sér keppnisrétt á LET-Evrópumótaröðinni á næsta tímabili. Hún er í 50. sæti á stigalistanum en 80 efstu í lok keppnistímabilsins halda keppnisrétti sínum á sterkustu mótaröð Evrópu.

„Það verður minni pressa á mér fyrir lokamótið en ég vil að sjálfsögðu reyna að hækka mig enn frekar á peningalistanum. Það var gott að þetta small hjá mér núna. Ég var búin að eiga nokkur mót þar sem ég var nálægt því að koma með góð skor en það small ekki hjá mér fyrr en nú,“ sagði Valdís Þóra en hún var stödd á flugvellinum í Peking á langri leið heim til Íslands þegar mbl.is náði tali af henni.

Valdís Þóra náði sínum besta árangri á LET mótaröðinni.
Valdís Þóra náði sínum besta árangri á LET mótaröðinni. Ljósmynd/http://ladieseuropeantour.com

Valdís fékk matareitrun fyrir mótið í Hainan og það háði henni í undirbúningi fyrir mótið.

„Ég flaug yfir til Kína frá Indlandi og fékk matareitrun daginn eftir að ég kom. Ég náði bara að spila níu holur í æfingahring fyrir mótið. Ég hélt engu niðri, gat ekkert borðað og var drulluslöpp. Ég held að ég hafi lést um fimm kíló og ég kemst í kjólinn minn fyrir jólin! Fyrstu tveir hringirnir fóru í eiginlega að komast í gegnum þá,“ sagði Valdís og hló en hún fékk 18 þúsund evrur í verðlaunafé fyrir að lenda í þriðja sætinu á mótinu en sú upphæð jafngildir um 2,3 milljónum íslenskra króna.

Lokamótið í LET-Evrópumótaröðinni fer fram í Dubai 6.-9. desember en í millitíðinni ætlar Skagakonan að koma heim til Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert