Silkimjúkar sveiflur á Silkimóti á Paradísareyju

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á fyrsta LPGA-móti sínu á Bahama-eyjum í …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á fyrsta LPGA-móti sínu á Bahama-eyjum í fyrra. Þangað er hún nú mætt aftur. Ljósmynd/GSÍ

Íþróttamaður ársins, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR, mun á morgun hefja leik á nýju keppnistímabili á bandarísku LPGA-mótaröðinni í golfi. Ólafía er mætt til Bahama-eyja þar sem Pure Silk-mótið fer fram næstu dagana. Þar hófst einmitt ferill Ólafíu á mótaröðinni fyrir ári.

Undirbúningur Ólafíu er hins vegar gerólíkur í þetta skipti. Fyrir ári hafði hún gengist undir umfangsmikla kjálkaaðgerð sem talsverðan tíma tekur að jafna sig eftir. Var hún á fljótandi fæði um tíma og missti mörg kíló. Líkamlegt atgervi hennar var því ekki eins og best verður á kosið í janúar í fyrra en í þetta skipti hefur Ólafía getað undirbúið sig fyrir nýtt tímabil af kostgæfni og var hún í æfingabúðum á Flórída eftir jólafríið á Íslandi.

Vegna góðs árangurs á mótaröðinni á síðasta tímabili þar sem Ólafía varð í 73. sæti á stigalistanum þá þarf hún ekki að hafa áhyggjur af því hvaða mót eru í boði fyrir hana eða ekki. Nú getur hún að langmestu leyti valið sér mót og skipulagt sig betur.

Á fyrsta ári á erfiðri mótaröð þar sem keppnistímabilið er langt, eða frá janúar og fram í nóvember, má auk þess draga ýmiss konar lærdóm hvernig best sé að stýra álaginu þannig að keppnisformið sé með ferskasta móti. Enginn heimsklassa kylfingur keppir á mótum í hverri viku í langan tíma. Hefur það einfaldlega slæm áhrif á árangurinn.

Ítarlega er fjallað um fyrsta mót ársins hjá Ólafíu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert