Valdís gerði vel í Ástralíu

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/Ladies European Tour

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni frá Akranesi, lauk leik á tveimur höggum yfir pari samtals á lokahring opna ástralska mótsins í golfi en mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni, þeirri sterkustu í heimi.

Hafnaði hún í 57.-61. sæti á þremur yfir pari sem verður að teljast góður árangur hjá Valdísi sem er með keppnisrétt á Evrópumótaröðinni og spilar mest þar.

Valdís fékk þrjá fugla, einn skolla og tvo tvöfalda skolla á lokahringnum en samtals urðu tvöföldu skollarnir sjö á hringjunum fjórum. Þeir urðu þrír á fyrstu tveimur hringjunum en samt sem áður komst Valdís í fyrsta skipti í gegnum niðurskurðinn á LPGA-mótaröðinni.

Tvöfaldir skollar voru skuggalega margir að mati Valdísar

Valdís segist þó eiga mikið inni.

„Ég er auðvitað ánægð með að komast í gegnum niðurskurðinn en mér finnst ég eiga helling inni. Ég fékk skuggalega mikið af tvöföldum skollum í þessu móti og margir þeirra komu upp úr engu og af miðri braut sem er mjög óvanalegt fyrir mig en ég læri bara af þessu móti,“ sagði Valdís.

Valdís spilaði mjög vel á mótinu og fékk meira en fjóra fugla að meðaltali á hring og var á parinu eftir fyrstu tvo hringina.

„Ég spilaði á heildina litið mjög vel og var með helling af fuglum og í mörgum tækifærum alla hringina sem var ánægjulegt. Ég hefði auðvitað viljað enda hærra miðað við spilamennskuna en þessir blessuðu tvöföldu skollar skemma fljótt fyrir annars góðu golfi. En ég er ánægð með bætinguna í leik mínum frá fyrsta mótinu og þar til núna,“ sagði Valdís Þóra sem fékk rúmlega 350 þúsund íslenskar krónur í verðlaunafé fyrir árangurinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert