Mickelson getur jafnað met frá 1968

Phil Mickelson með sigurlaunin á World Golf Championship í byrjun …
Phil Mickelson með sigurlaunin á World Golf Championship í byrjun mars. Hann og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir eru á meðal fjögurra kylfinga sem KPMG í Bandaríkjunum ákveður að styðja. AFP

Eftir að bandaríski kylfingurinn Phil Mickelson sigraði á dögunum á móti í PGA-mótaröðinni í fyrsta skipti í tæplega fimm ár þá má velta því fyrir sér hvort hann geti sigrað á Masters-mótinu í næsta mánuði, fyrsta risamóti ársins. Mickelson myndi þá jafna met frá árinu 1968. 

Mickelson hefur þrívegis sigrað á Masters-mótinu sem fer ávallt fram á sama vellinum, Augusta National, og sker sig þar af leiðandi frá hinum þremur risamótunum hjá körlunum. Þeir sem kunna vel við sig á vellinum geta því talist líklegir til að blanda sér í baráttuna ef þeir eru á annað borð í góðu formi. 

Þar sem Mickelson sigraði á WGC-mótinu í Mexíkó á dögunum er hann líklegur til að blanda sér í baráttuna á Masters. Það sem er fréttnæmt er sú staðreynd að Mickelson verður 48 ára gamall í júní. Takist honum að vinna Masters þá yrði hann elsti sigurvegari á mótinu frá upphafi og myndi jafna metið yfir elsta sigurvegara á risamóti frá upphafi. 

Phil Mickelson hefur um langa hríð verið sérlega vinsæll á …
Phil Mickelson hefur um langa hríð verið sérlega vinsæll á meðal golfunnenda í Bandaríkjunum og víðar. AFP

Julius Boros á metið

Elsti sigurvegari á risamóti karla í golfi frá upphafi er Julius nokkur Boros sem var 48 ára þegar hann sigraði á PGA-meistaramótinu árið 1968. Síðasta og sísta risamótinu af þeim fjórum hjá körlunum. Boros myndi hafa vinninginn á Mickelson við nákvæmari skoðun því hann var 48 ára og fjögurra mánaða gamall þegar hann sigraði á PGA-meistaramótinu. Var því hálfu ári eldri en Mickelson verður þegar Masters fer fram.

Elsti sigurvegari á Masters er Jack Nicklaus sem var 46 ára þegar hann vann mótið árið 1986. Með mögnuðum endaspretti tókst honum að slá Seve Ballesteros, Greg Norman, Bernhard Langer, Tom Kite og fleiri köppum við. 

Snillingur í stutta spilinu

Allur gangur er á því hvernig kylfingar eldast eins og gengur. Líkaminn gefur stundum eftir þar sem um endalausar endurtekningar er að ræða árum og áratugum saman. Mickelson er í góðu líkamlegu ásigkomulagi og ekki er vitað til þess að hann þurfti að hafa áhyggjur af meiðslum. Þegar bestu kylfingar heims nálgast fimmtugt þá hafa þeir stundum verið farnir að eyða tíma sínum í annað eins og fjárfestingar eða golfvallahönnun. Æfa þar af leiðandi minna en áður og missa gjarnan tilfinninguna fyrir nákvæmari þáttum íþróttarinnar, vippum og púttum, sem þarf að vera í fullkomnu lagi til að vinna risamót. Nú vill svo til að Phil Mickelson er snillingur í vippum og höggum í kringum flatirnar. Sá þáttur er því ekki vandamál heldur er líklegra að Mickelson gangist upp í því að sýna áhorfendum snilli sína í þeim þáttum. 

Phil Mickelson er vel á sig kominn líkamlega og sveiflan …
Phil Mickelson er vel á sig kominn líkamlega og sveiflan þykir vera áþekk því þegar hann kom úr háskóla snemma á tíunda áratugnum. AFP

Mickelson virðist hafa haft nægt elju til að koma sér aftur í baráttu um sigur eftir nokkur mögur ár. Þá lék hann illa um nokkurt skeið auk þess sem hann þurfti að glíma við vandamál utan vallar sem sneru að fjármálum. Annars vegar skattamálum og grunsemdum um að hafa hagnast á hlutabréfaviðskiptum eftir að hafa komist yfir innherjaupplýsingar. Löngunin virðist hins vegar hafa verið næg til að halda sér í fremstu röð og sem af er þessu ári hefur Mickelson leikið virkilega vel. Sigurinn í Mexíkó kom því ekkert sérstaklega á óvart þar sem hann hafði þrívegis verið á meðal tíu efstu í mótum á þessu ári. 

Hafði betur gegn stjörnum dagsins í dag

Keppendalistinn á mótinu í Mexíkó var athyglisverður. Mickelson setti þar marga af helstu stjörnum íþróttarinnar í dag aftur fyrir sig. Mönnum sem eru nógu ungir til að vera synir hans. Á meðal þeirra sem voru með í mótinu í Mexíkó voru Justin Thomas, Jordan Spieth, Dustin Johnson, Jon Rahm, Sergio Garcia, Justin Rose, Paul Casey, Bubba Watson, Rickie Fowler, Patrick Reed og Tommy Fleetwood. Langri bið Mickelson eftir sigri lauk því ekki vegna þess að stjörnurnar hafi ekki nennt að mæta. Hann spilaði einfaldlega betur.

Mickelson hefur fimm sinnum sigrað á risamótum. Þrívegis á Masters 2004, 2006 og 2010. Einu sinni á PGA-meistaramótinu 2005 og einu sinni á því elsta, Opna bresta meistaramótinu, árið 2013. Var það hans síðasti sigur á atvinnumannamóti þar til í Mexíkó á dögunum. Alls hefur Mickelson sigrað fjörutíu og þrisvar á PGA-mótaröðinni og er níundi á listanum yfir flesta sigra frá upphafi. Auk þess hefur hann tíu sinnum sigrað á Evrópumótaröðinni sem Birgir Leifur Hafþórsson leikur á og einu sinni á Áskorendamótaröðinni sem Axel Bóasson leikur á. 

Phil Mickelson fyrir tveimur áratugum.
Phil Mickelson fyrir tveimur áratugum. Reuters

Mbl.is ætlar ekki að ganga svo langt að spá því að Phil Mickelson sigri á Masters rétt tæplega 48 ára gamall en býst við því að hann verði alla vega í hópi efstu manna. Hann hefur leikið vel í nokkrum mótum að undanförnu og veit hvernig er heppilegt að spila Augusta-völlinn. Auk þess stendur Mickelson vel að vígi þegar kemur að taugastríðinu sem fylgir Masters og þá sérstaklega í samanburði við kylfinga sem ekki hafa sigrað á mótinu. Ekki verða vippin vandamál hjá honum en flatirnar á Augusta eru geysilega erfiðar viðureignar þótt ekki skili það sér alltaf nægilega vel í gegnum sjónvarp. 

Sigurinn á dögunum ætti að róa Mickelson niður en þegar biðin eftir sigri er orðin nokkur ár þá hefur slíkt áhrif. Hann þarf ekki að efast um það lengur að hann geti unnið ungu mennina. Einnig verður áhugavert að sjá hvort Mickelson nái sér á strik á Opna bandaríska meistaramótinu í júní því það er eina risamótið sem hann hefur ekki sigrað á. Eftir að Mickelson náði að landa sigri á Opna breska árið 2013 hafa margir velt því fyrir sér hvort hann geti klára dæmið og bætt því fjórða við. Saga hans á Opna bandaríska er eiginlega ótrúleg því þar hefur hann sex sinnum hafnað í 2. sæti: 1999, 2002, 2004, 2006, 2009 og 2013.

Phil Mickelson í græna jakkanum ásamt Tiger Woods en jakkinn …
Phil Mickelson í græna jakkanum ásamt Tiger Woods en jakkinn er tákn fyrir sigur á Masters-mótinu. Tiger, sem einnig er kominn á fimmtudagsaldurinn, þykir til alls líklegur á Masters eftir að hafa sýnt sparihliðarnar undanfarið. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert