Birgir keppir við stórstjörnur

Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson Ljósmynd/GSÍ

Birgir Leifur Hafþórsson verður á meðal keppenda á BMW International sem er stórt mót á Evrópumótaröðinni og hefst á fimmtudaginn. Nokkrar stórstjörnur í golfíþróttinni eru skráðar til leiks í mótinu. 

Birgir á teig klukkan 14:20 að staðartíma í Þýskalandi. Er hann í ráshópi með Grégory Bourdy og Jeunghun Wang fyrstu tvo hringina. Ráshópur þeirra er sá fjórði síðasti á fyrsta keppnisdegi. 

Einn besti kylfingur heims um þessar mundir Tommy Fleetwood frá Englandi er á meðal keppenda og ætti hann að vera í hörkuformi eftir að hafa verið aðeins höggi frá sigri á Opna bandaríska meistaramótinu síðasta sunnudag. Lék hann þá síðasta hringinn á 63 höggum. Fleetwood hafnaði einnig ofarlega á Masters í apríl og varð efstur á peningalista Evrópumótaraðarinnar á síðasta ári. 

Spánverjinn Sergio Garcia sem sigraði á Masters í fyrra og goðsögn í Ryder-bikarnum er með í mótinu Þá er Þjóðverjinn Martin Kaymer skráður til leiks enda á heimavelli en hann hefur tvívegis sigrað á risamótum. 

Gamlar og þekktar kempur verða með í mótinu eins og Ernie Els og Jose Maria Olazabal sem eru margfaldir sigurvegarar á risamótum. Daninn Thomas Björn er einnig skráður til leiks en hann verður fyrirliði Ryderliðs Evrópu í haust. 

Þá má nefna kylfinga sem keppt hafa í Ryder-bikarnum í gegnum tíðina eins og Jamie Donaldsson, Edoardo Molinari og Robert Karlsson.

Mótið fer fram í Pulheim í nágrenni Kölnar.  

Birgir öðlaðist keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á þessu tímabili með því að sigra á móti á Áskorendamótaröð Evrópu í fyrra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert