Hörkuduglegur keppnismaður

Haraldur Franklín Magnús púttar á æfingahring á Carnoustie vellinum í …
Haraldur Franklín Magnús púttar á æfingahring á Carnoustie vellinum í gær og goðsögnin Lee Westwood fylgist með honum. Ljósmynd/Páll Ketilsson

Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands, er að vonum stoltur af þeim árangri sem Haraldur Franklín Magnús hefur náð með því að komast fyrstur íslenskra karlkylfinga inn á Opna breska meistaramótið í golfi:

„Af risagolfmótunum fjórum er Opna breska meistaramótið álitið það mikilvægasta, og sigur á þessu móti sá eftirsóknarverðasti af öllum þeim titlum sem karlkylfingum stendur til boða,“ segir Brynjar.

Aðspurður hversu vel hann á von á að Haraldi gangi í Carnoustie segir Brynjar að það sé afrek út af fyrir sig að hafa öðlast þátttökurétt. „Sama hvernig þessi helgi fer þá mun það fleyta Haraldi langt að hafa tekið þátt. Keppnin mun veita honum reynslu af því hvernig það er að standa á stærsta sviðinu og ég held að þetta geti verið honum mikil vítamínsprauta. Fyrst skulum við sjá hvort honum tekst að komast í gegnum niðurskurðinn fyrstu tvo keppnisdagana, en ef það tekst þá hefur Haraldur í raun engu að tapa.“

„Svartur hestur“

Brynjar hefur fylgst vel með ferli Haralds og segir þátttöku hans á Opna breska fyllilega verðskuldaða. „Hann er löngu búinn að sanna sig hér á Íslandi, hampaði fyrst Íslandsmeistarabikarnum á Hellu árið 2012, og var áður margoft búinn að fagna Íslandsmeistaratitli unglinga. Sem áhugamaður skaraði hann fram úr í íþróttinni og ákveður síðan að gera atlögu að því að gerast atvinnumaður í golfi og hefja þátttöku í þriðju deild í Evrópu,“ rekur Brynjar söguna. „Þannig klifrar hann jafnt og þétt upp stigann á þann stað sem hann er kominn á í dag. Í fyrra var hann hársbreidd frá því að komast upp í aðra deild, Challenge Tour, og skellir sér síðan í úrtökumót fyrir Opna breska. Hann var einn af þremur sem komust inn og rosalega flottur árangur því það voru engir smákarlar sem hann spilaði gegn.“

Erlenda golfpressan hefur tekið eftir árangri þessa unga og lítt þekkta Íslendings. „Hann er farinn að vekja athygli þarna úti og er álitinn einn af „svörtu hestunum“ á Opna breska meistaramótinu í ár.“

Viðtalið við Brynjar í heild sinni er í sérblaði Morgunblaðsins um Opna breska meistaramótið, The Open, sem fylgdi blaðinu í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert